Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Landverðir á alþjóðaráðstefnu landavarða í Colorado 2016

Alþjóðadagur landvarða er 31. júlí og hefur verið haldinn hátíðlegur um allan heim ár hvert frá árinu 2007. Þessi dagur er til að minnast þeirra mörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Flestir landverðir sem látast við skyldustörf eru þeir sem berjast við veiðiþjófa í m.a. Afríku og Asíu. Þessi dagur er einnig haldinn hátíðlegur til að fagna mikilvægu starfi landvarða  um allan heim við að vernda náttúru- og menningalegu verðmæti heimsins. Slagorð alþjóðadags landvarða í ár er „I STAND WITH THE WORLD´S PARK RANGERS PROTECTING OUR WILDLIFE“. 

Hjá Umhverfisstofnun starfa um 20 landverðir yfir sumartímann vítt og breytt um landið. Hlutverk landvarða er að hafa umsjón og eftirlit með friðlýstum svæðum, sjá til þessa að gestir brjóti ekki lög um náttúruvernd og fari eftir reglum sem gilda um svæðin. Landverðir verja drjúgum hluta vinnutímans í fræðslu og upplýsingagjöf, fræða gesti um náttúru og lífríki og mikilvægi þess að vernda þessi svæði.

Í tilefni dagsins ætla landverðir hjá Umhverfisstofnun að vera með uppákomur á eftirtöldum stöðum:

Í friðlandinu Vatnsfirði verður fræðsluganga í Lambagil í Vatnsdal. Mæting er við Hótel Flókalund kl. 13:00. Gangan er miðlungs létt og áætlað að taki 4 klst. 

Í Mývatnssveit verður fræðsluganga í Dimmuborgum með öðru sniði en dagsdaglega. Sagt verður frá störfum landvarða á svæðinu og vítt um heiminn. Lagt verður af stað klukkan 14:00 frá aðalhliðinu að Dimmuborgum. Gera má ráð fyrir að gangan taki um klukkustund.

Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli verður einnig haldið upp á daginn og dagskrá auglýst síðar.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri, vera í góðum skóm og góðu skapi.