Stök frétt

Í ár var 8. ágúst skilgreindur sem dagur þolmarka jarðarinnar en það er sá dagur ársins þegar við höfum notað jafn mikið af auðlindum og jörðin getur framleitt árlega (fiskur, timbur, eldsneyti, upptaka koltvísýrings). Þetta þýðir að frá og með deginum í dag og til loka ársins munum við jarðarbúar ganga á auðlindir jarðarinnar á ósjálfbæran hátt. Sem dæmi þá eykst koltvísýringur meira í andrúmsloftinu en jörðin getur bundið, skógar hverfa, dýrategundir deyja út eða dýrastofnar eru ofnýttir.

Það er margt sem við getum auðveldlega gert til að létta á álaginu á jörðina t.d. getum við hjólað, gengið eða tekið strætó í vinnu, minnkað matarsóun, dregið úr neyslu á óþarfa hlutum, forðast að kaupa einnota hluti, flokkað úrgang, moltað lífrænan úrgang heima við, notað minna af snyrti- og hreinsiefnum. Á vefsíðu Earth overshoot day 2016 má sjá ýmsan fróðleik um málið og hvað hægt er að gera til að minnka eigin fótspor. Einnig bendum við á síðuna okkar grænn lífsstíll.