Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Íslensk náttúra er ein verðmætasta eign þjóðarinnar og flest okkar hafa sterkar tilfinningar til hennar. Náttúra Íslands er viðkvæm, jarðvegur er ungur, gróðurhula þunn og vaxtartími plantna stuttur. Umgengni okkar við náttúru landsins hefur þó oft ekki verið til fyrirmyndar, oftast af gáleysi en ekki af ásetningi. Síðustu ár hefur orðið bylting í fararskjótum þeirra sem fara yfir fjöll og hálendi, hestar hafa vikið fyrir vélknúnum ökutækjum eins og t.d. fjórhjólum. Hin síðari ár hefur mikið borið á skemmdum á landi vegna akstur vélknúinna ökutækja utan vega bæði bíla, fjórhjóla og annarra ökutækja. Skemmdir þessar hafa valdið sárum á landinu sem erfitt er að afmá og eru lengi að gróa ef þau gróa á annað borð. Þessar skemmdir eru oft upphaf gróðureyðingar og skemma út frá sér í marga áratugi. Nú er kominn sá tími árs að leitir eru að hefjast, þar sem bændur ganga á afrétti og sækja fé heim. Þessir hópar hafa í auknu mæli nýtt sér fjórhjól til þess að létta sér störfin.

Umhverfisstofnun vill í ljósi þessa minna á að bannað er aka vélknúnum ökutækjum utan vega, sbr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og varðar ólögmætur akstur utan vega refsingu, sbr. 90. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 31. gr. laganna segir þó að bændum sé við eftirleitir heimilt að sækja sauðfé inn á miðhálendið á léttum vélknúnum ökutækjum, svo sem fjórhjólum, enda verði þeim gripum ekki náð með öðru móti og ekki talin hætta á náttúruspjöllum.

Í þeim tilvikum sem heimild er til aksturs utan vega er ökumanni skylt að gæta sérstakrar varkárni og forðast að valda náttúruspjöllum, sbr. 6. mgr. 31. gr. náttúruverndarlaga.

Umhverfisstofnun vill hvetja alla þá sem skipuleggja leitir að upplýsa viðkomandi aðila um þær reglur sem gilda um notkun vélknúinna ökutækja í náttúru Íslands til þess að komast megi hjá spjöllum. Umhverfisstofnun óskar ykkur góðrar heimtu á komandi haustmánuðum í sátt við náttúruna og umhverfið.