Umhverfistofnun - Logo

Stök fréttÁ haustmánuðum 2015 stóð Umhverfisstofnun fyrir eftirliti með hættulegum efnavörum í matvöruverslunum. Eftirlitið náði til 13 verslana og 4 birgja víða um landið. Verkefnið var yfirgripsmikið og úrvinnsla þess tók langan tíma. Alls voru 108 vörur í úrtaki og reyndist helmingur þeirra vera án frávika, á meðan gera þurfti kröfur um úrbætur á merkingum fyrir hinn helming varanna. Öll fyrirtækin seldu eina eða fleiri efnavörur sem voru vanmerktar og var fjöldi vara sem ekki uppfyllti kröfur um merkingar á bilinu 1-9 í hverri verslun. 

Í úrtaki voru meðal annars klósetthreinsar, uppþvottalegir, blettahreinsar, gluggasprey, klór og ofnahreinsar. Megináhersla var lögð á að skoða hvort merkingar væru uppfærðar og í samræmi við gildandi reglugerðir. 

Nokkuð var um að ekki væri búið að uppfæra hættumerkingar og taka upp nýju hættumerkin, sem urðu skyldubundin fyrir bæði hrein efni og efnablöndur þann 1. júní 2015. Eftir þann tíma er ekki heimilt að setja nýjar vörur í sölu með gömlum merkingum, heldur einungis að ljúka við að selja eldri birgðir sem eru komnar fram í hillur verslana. Mikilvægt er að búið verði að skipta eldri varnaðarmerkingum út að fullu fyrir 1. júní 2017.

Viðbrögð fyrirtækjanna við niðurstöðu eftirlitsins voru alla jafna góð og hafa 14 fyrirtæki orðið við kröfum um úrbætur vegna frávika. Þrjú fyrirtæki brugðust ekki við tilmælum Umhverfisstofnunnar og eru þau mál sem stendur í eftirfylgni hjá stofnuninni.

Hættuleg efni eru föst efni, vökvar eða lofttegundir sem geta valdið skaða á fólki, öðrum lífverum eða umhverfinu. Þau koma víða við sögu, ekki bara í iðnaði og annarri atvinnustarfssemi, heldur einnig í daglegu lífi almennings. Hversdagsleg verkefni eins og að setja í þvottavél, bera á pallinn og þrífa bakaraofninn krefjast þess oftar en ekki að notuð séu hættuleg efni og þá er afar mikilvægt að möguleg hætta sem af þeim getur stafað fari ekki á milli mála. Þess vegna  þurfa hættumerki ásamt  hættu- og varúðartexta á íslensku að vera vel sýnileg á umbúðum varanna.