Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út aðgerðaáætlun um notkun varnarefna sem gildir til ársins 2031. Áætlunin nær til markaðssetningar og notkunar á plöntuverndarvörum hér á landi og markmiðið með henni er að draga markvisst úr notkun plöntuverndarvara og stuðla að sjálfbærri notkun þeirra í því skyni að draga úr áhættu fyrir heilsu og umhverfið.

Í efnalögum er Umhverfisstofnun falið að vinna tillögu að aðgerðaáætlun í samráði við önnur stjórnvöld og hagsmunaaðila sem málið varðar og að auglýsa hana þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Aðgerðaáætlunin er gefin út til 15 ára og hana skal endurskoða á 5 ára fresti.

Þetta er í fyrsta sinn sem aðgerðaáætlun um notkun varnarefna er útbúin hér á landi og þar eru teknar saman ýmsar upplýsingar um notkun plöntuverndarvara sem ekki hafa verið aðgengilegar áður og má þar til dæmis nefna yfirlit um innflutning á þessum vörum á undanförnum árum, hve mikið af þeim er notað í atvinnuskyni og hvernig notkunin skiptist eftir mismunandi ræktun.

Í áætluninni eru sett fram tímasett markmið varðandi skoðun á búnaði til úðunar, áhættumat á plöntuverndarvörum til notkunar fyrir almenning og gerð áætlunar sem miðar að því að draga úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum og í öðru manngerðu umhverfi. Þá eru skilgreindir áhættuvísar sem miða að því að dregið verði úr notkun á plöntuverndarvörum til framtíðar.

Nánar er fjallað um aðgerðaáætlunina á vef Umhverfisstofnunar.