Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Framkvæmdir við nýjan stiga við Gullfoss hefjast að nýju eftir töluverða bið. Framkvæmdir við nýjan stiga milli efra og neðra svæðis hófust í vor við Gullfoss en vegna ófyrirséðra aðstæðna hafa framkvæmdir tafist. Stefnt er að því að framkvæmdum við stigann verði lokið fyrir byrjun desember á þessu ári. 

Þess ber að geta að á næstu misserum má gera ráð fyrir ýmsum framkvæmdum á svæðinu til að bæta aðgengi og stuðla að vernd svæðisins. Næstu framkvæmdir eru að endurnýja útsýnispall á efra svæði, nýr göngustígur frá Gullfosskaffi að stiga og nýr útsýnispallur á efra svæði ofan fossbrúnar. Auk þessa er gert ráð fyrir endurnýjun öryggisgirðingar á neðra svæði auk lengingar á henni niður með ánni.

Stefnt er að því að framkvæmdir séu ekki í gangi á háannatíma en þar sem ferðamenn heimsækja Gullfoss allan ársins hring er óhjákvæmilegt að ferðamenn verði fyrir einhverjum áhrifum vegna þessa.