Stök frétt

Þann 28. júní s.l. stóð Umhverfisstofnun fyrir eftirliti hjá fyrirtækjum sem setja plöntuverndarvörur á markað. Skoðað var hvort plöntuverndarvörur sem þar fundust hefðu tilskilin leyfi til að mega vera á markaði, hvort merkingar á þeim væru samkvæmt reglum og hvort uppfærð öryggisblöð á íslensku væru aðgengileg fyrir þá sem nota vörurnar í atvinnuskyni.

Í eftirlitinu voru skoðaðar alls 55 plöntuverndarvörur. Engin frávik komu fram í einu af þeim fimm fyrirtækjum sem voru í úrtaki í verkefninu, en í hinum fundust samtals 60 frávik vegna 36 vara.  Algengasta frávikið fólst í því að öryggisblöð voru ekki aðgengileg fyrir þá sem nota vörurnar í atvinnuskyni, en það átti við um 35 vörur. Merkingar voru ófullnægjandi á 22 vörum og loks reyndust 3 vörur ekki vera með leyfi til að vera á markaði. Plöntuverndarvörur sem seldar eru í smásölu og almenningur má nota reyndust allar fullnægja kröfum um merkingar.

Eftirlitsþegum voru sendar eftirlitsskýrslur ásamt bréfi um miðjan júlí 2016 og því fyrirtæki, þar sem ekki komu fram frávik, var jafnframt tilkynnt um málslok. Þeim fjórum fyrirtækjum, þar sem frávik komu fram, var veittur frestur til 31. ágúst 2016 til að gera athugasemdir við eftirlitið og bregðast við frávikum. Tvö fyrirtækjanna hafa brugðist við frávikum á fullnægjandi hátt og hefur þeim verið sent málslokabréf en hin tvö vinna enn að úrbótum samkvæmt áætlun sem stofnunin hefur samþykkt. Hér má nálgast samantektarskýrslu um eftirlitsverkefnið.

Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til þess að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum. Notkun þessara vara getur verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu sé ekki rétt með þær farið.

Á tímabilinu 2012-2015 voru 65 mismunandi plöntuverndarvörur settar á markað hér á landi þannig að með því að skoða 55 vörur í þessu eftirlitsverkefni náðist til rúmlega 85% af þeim vörum sem eru á markaði.