Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Matarsóun er málefni sem sífellt fær meiri athygli, ekki einungis hér á landi, heldur um öll Vesturlönd og hefur því verið haldið fram að allt að þriðjungi þeirra matvæla sem framleidd eru í heiminum sé sóað. Með því að draga úr matarsóun má nýta betur auðlindir og spara fé, auk þess sem fullyrða má að sóun matar leggi umtalsvert til losunar gróðurhúsalofttegunda, en gróðurhúsaáhrifin eru áskorun sem gervöll heimsbyggðin tekst nú á við. Á síðustu árum hefur verið gert átak í að mæla umfang matarsóunar, einkum í Evrópu, og nú liggja fyrir niðurstöður úr fyrstu rannsókninni sem gerð hefur verið á umfangi matarsóunar á Íslandi, sem nær til landsins alls og til hvort tveggja heimila og fyrirtækja. Umhverfisstofnun framkvæmdi rannsóknina fyrr á þessu ári, með fjárstuðningi frá Evrópusambandinu og umhverfis– og auðlindaráðuneytinu, auk faglegrar aðstoðar frá Hagstofu Íslands.

  • Rannsóknin skiptist í tvennt, annars vegar í heimilishluta og hins vegar í fyrirtækjahluta.
  • 1.036 heimili lentu í úrtaki. Svör bárust frá 123 heimilum.
  • 701 fyrirtæki lenti í úrtaki, úr 17 atvinnugreinaflokkum. Svör bárust frá 84 fyrirtækjum, úr 12 atvinnugreinaflokkum.
  • Þátttakendur mældu og skráðu þann mat sem þeir hentu.

Helstu niðurstöður:

  • Matarsóun á heimilum á Íslandi er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu.
  • Ekki er marktækur munur á sóun á heimilum eftir því hvort þau eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.
  • Rannsóknin dregur upp svipaða mynd af matarsóun frá atvinnurekstri og komið hefur fram í öðrum Evrópulöndum, þar sem mesta sóunin er hjá veitingarekstri og matvælaframleiðslu.
 

Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna hér.