Stök frétt

Í desember 2016 uppfærði Umhverfisstofnun leiðbeinandi reglur um meðferð dýpkunarefnis sem Hollustuvernd ríkisins setti fram árið 2000. Í seti sem tekið er upp við dýpkun og tengdar framkvæmdir í höfnum geta verið mengandi efni á borð við þungmálma og þrávirk lífræn efni. Samkvæmt OSPAR samningnum um verndun hafrýmis Norðaustur Atlantshafsins og laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda er óheimilt að varpa dýpkunarefni í hafið. Í 9. gr. laganna kemur þó fram að Umhverfisstofnun geti veitt leyfi til að dýpkunarefnum sé varpað í hafið að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar.