Stök frétt

Umhverfisstofnun vinnur að athugun á atviki í verksmiðju Sameinaðs sílikons hf. Í Helguvík þar sem myndskeið sýnir losun á reyk um túðu á búnaði sem tengist hreinsibúnaði verksmiðjunnar Haft var samband við verksmiðjuna strax í gærkvöld eftir að myndskeiðið birtist en bæði mbl.is og visir.is tóku upp frétt Stundarinnar þar um. Forsvarsmenn verksmiðjunnar svöruðu strax í nótt og gáfu þær skýringar að reykhreinsivirki hafi stíflast, reynt hafi verið að losa stífluna með því að opna þessa túðu sem sést í myndskeiðinu og þá hafi þetta ryk - kísilryk - komið út. Kísilryk er ekki flokkað sem eiturefni. Nauðsynlegt er að fara nánar yfir atvikið og verklag því tengdu í eftirliti. Umhverfisstofnun bendir á að hægt er að fylgjast með mælingum frá fjórum mælistöðvum á styrk mengunarefna á síðunum andvari.is og loftgæði.is  

Mælingarnar eru í gangi allan sólarhringinn og nýjustu mæligögn uppfærast á 10 mínútna fresti. Á gamlárskvöld fékkst ágætt próf á virkni mælannna, en þá mældist talsverð mengun frá flugeldum á mælistöðvunum við Heiðarskóla og Hólmbergsbraut. Ef frá eru taldir þessir toppar á gamlárskvöld og nýársnótt hafa þeir mengunartoppar sem hafa komið verið vel innan heilsuverndarmarka og nokkuð lægri en toppar sem oft sjást á höfuðborgarsvæðinu.

Forsaga

Forsaga málsins er sú að þann 11. nóvember sl. var kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. (United Silicon) í Helguvík gangsett, en um er að ræða fyrstu verksmiðju þessarar tegundar sem sett er upp á Íslandi. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi fyrir verksmiðjuna í október 2014 og fer með eftirlit með starfsemi hennar.
 
Gangsetning verksmiðjunnar hefur ekki gengið sem skyldi. Fjölmargar kvartanir um lyktar- og reykmengun hafa borist til Umhverfisstofnunar auk þess sem a.m.k. einn einstaklingur leitaði til læknis v. áhrifa á öndunarfæri. Skýringar á þeim reyk sem sést hefur má rekja til þess að verið var að finna réttar stýringar á afsogi frá ofnum og reykhreinsibúnaði. Lyktin stafar fyrst og fremst af ófullkomnum bruna á lífrænum efnum (timburflís) þar sem ofninn var ekki komin á það stig að vera komin í jafnvægi og ná því hitastigi þar sem von er á að lyktin eyðist. Við viðarbruna myndast ýmis efni sem geta valdið umræddri lykt og geta þessi efni í litlum styrk valdið ertingu í öndunarvegi og augum. Umhverfisstofnun fundaði með Sóttvarnarlækni í nóvember vegna þessa og einnig vegna ábendinga um hugsanleg heilsufarsleg áhrif vegna áhrifa frá útblæstri verksmiðjunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnalækni ver ekki að merkja aukningar á veikindum á svæðinu sem rekja má til mengunar frá verksmiðjunni. Ekki var talin þörf á að grípa til aðgerða að svo stöddu en ákveðið að áfram yrði fylgst vel með bæði af hálfu Sóttvarnalæknis og Umhverfisstofnunar.
 
Eftirlit Umhverfisstofnunar með starfseminni hófst í kjölfar útgáfu starfsleyfis og hefur verið umfangsmikið frá gangsetningu sbr. þær 7 eftirlitsskýrslur sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar http://ust.is/einstaklingar/mengandi-starfsemi/verksmidjur/sameinad-silikon-hf/ . Jafnframt er unnið að skýrslu frá 15. desember sl. og fer stofnunin í viðbótareftirlit eins og þörf krefur. Kallað hefur verið jafnóðum eftir upplýsingum frá rekstraraðilum um fjölmörg atriði sem snúa að mengunarvörnum. Þann 8. desember sl. beindi stofnunin sérstökum fyrirmælum v. eftirlits til verksmiðjunnar þar sem greind höfðu verið 11 frávik frá starfsleyfi. Fyrirmælin voru á þá leið að ljósbogaofn verksmiðjunnar, sem hafði verið stöðvaður vegna vinnuslyss, yrði ekki ræstur á ný fyrr en stofnuninni hefðu borist tiltekin gögn um úrbætur. Rekstraraðilar brugðust hratt við með áætlun um úrbætur og var fyrirmælunum aflétt þann 12. desember sl. Kvörtunum fækkaði eftir miðjan desember en nú hefur enn á ný borist ábending vegna starfseminnar sem verið er að vinna úr. 
Umhverfisstofnun leggur áherslu á gegnsæi og miðlun upplýsinga vegna eftirlits með mengandi starfsemi. Allar eftirlitsskýrslur og ákvarðanir um þvingunarúrræði eru birtar jafnóðum á heimasíðu stofnunarinnar. Birtar hafa verið fréttir á heimasíðu stofnunarinnar vegna eftirlits með kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. jafnframt því sem leitast hefur verið við að svara spurningum fjölmiðla jafnóðum. Sérfræðingar stofnunarinnar fóru á fund bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og setið var fyrir svörum hjá Víkurfréttum í kjölfarið. Þann 14. desember tók stofnunin þátt í íbúafundi í Reykjanesbæ þar sem málefni verksmiðjunnar voru til umfjöllunar og veitti ítarlegar upplýsingar. Almenningur hefur kost á því að koma að ábendingum í gegnum vef stofnununarinnar undir nafni, nafnlaust eða hafa samband við stofnunina með öðrum hætti.