Stök frétt

Þótt deila megi um hvort þróun í flokkun úrgangs hér á landi sé nægilega hröð má víða sjá merki um betrumbætur sem tengjast aukinni umhverfisvitund, bæði hjá almenningi og fyrirtækjum.

Eitt dæmi er að Isavia er þessa dagana að taka í notkun ólíkar gerðir af sorpílátum á flughöfnum. Með nýja skrefinu verður hægt að flokka almennt heimilissorp, plast og skilagjaldsumbúðir.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir: "Það er rétt, við erum í átaki og förum eftir Grænu skrefunum og auk þess kerfi frá Alþjóðasamtökum flugvalla á Keflavíkurflugvelli. Þar erum við reyndar að bíða eftir leyfi frá tollayfirvöldum til þess að flokka það sem fellur til á tollfrjálsu svæði.“

Myndin er tekin í flugstöðinni á Akureyri sl. föstudag eftir að nýju umhverfisvænu ílátin voru tekin í notkun fyrir norðan. Var ekki að annað að sjá en að flugfarþegar kynnu vel að meta og nýttu sér skilvirkari og ábyrgari sorpflokkun.