Stök frétt

Umhverfisstofnun fór nýlega í eftirlit með merkingum og öryggisblöðum viðhaldsvara fyrir bíla hjá fyrirtækjum sem flytja inn og selja slíkar vörur. Um var að ræða úrtakseftirlit þar sem skoðaðar voru 36 vörur hjá 13 fyrirtækjum. Hluti af verkefninu fólst í að fræða fyrirtækin um gildandi reglur um merkingar og öryggisblöð.

Einungis 6 vörur af 36 (17%) sem skoðaðar voru reyndust án frávika frá reglum. Frávikin fólust einkum í því að íslenskar hættumerkingar vantaði alfarið á vörurnar (42%) eða að uppfæra þurfti merkingarnar í samræmi við nýjar merkingareglur (30%). Smelltu hér til að lesa nánar um eftirlitsverkefnið.

Þeir sem nota hættulegar efnavörur í atvinnuskyni eiga rétt á að fá afhent öryggisblöð á íslensku með vörunum. Í eftirlitinu voru gerðar athugasemdir ef öryggisblöð voru ekki uppfærð að nýjustu reglum eða á öðru tungumáli en íslensku.

Umhverfisstofnun gerði kröfur um úrbætur á frávikum sem öll fyrirtækin hafa nú brugðist við með því að gera viðeigandi úrbætur.

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að frá og með 1. júní 2017 taka að fullu gildi nýjar reglur um merkingar á efnavörum sem flokkast hættulegar, þar með talið að bera ný tígullaga hættumerki.