Stök frétt

Notkun og markaðssetning ósoneyðandi efna hefur verið bönnuð frá árslokum 2014, nema í sérstökum tilfellum sem falla undir svokallaða neyðarnotkun. Þrátt fyrir þetta eru vísbendingar um að slík efni gangi enn kaupum og sölum hér á landi.

Í ljósi þessa  fór Umhverfisstofnun í eftirlit hjá fyrirtækjum sem staðið hafa að innflutningi kælimiðla, sem falla í hóp ósoneyðandi efna og flúoraðra gróðurhúsalofttegunda, með það að markmiði að kanna hvort bannaða ósoneyðandi miðla væri enn að finna í sölu hjá þessum fyrirtækjum.

Farið var í vettvangseftirlit hjá sjö fyrirtækjum og lageraðstaða þeirra skoðuð. Hjá sex fyrirtækjum voru ekki gerðar neinar athugasemdir, en hjá einu fyrirtæki fundust miðlar sem ekki má lengur markaðssetja eða nota. Umhverfisstofnun krafðist þess að miðlunum yrði skilað til eyðingar hjá viðurkenndum aðila og fyrirtækið hefur orðið við þeim kröfum.