Stök frétt

Í ljósi ólíkrar upplifunar íbúa í Reykjanesbæ  og vegna opinberrar umræðu undanfarnar vikur um heilsuspillandi áhrif mengunar frá kísilverksmiðju Sameinaðs Silíkons hf í Helguvík vilja sóttvarnalæknir og Umhverfisstofnun upplýsa almenning um að haft hefur verið náið samráð við lækna heilsugæslu Suðurnesja og Vinnueftirlitið þegar mat hefur verið lagt á heilsufarsáhrif mengunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum þessara aðila hefur ekki verið hægt að greina útbreidd eða ákveðin sjúkdómseinkenni hjá íbúum í nágrenni verksmiðjunnar eða starfsmönnum verksmiðjunnar. Fáir einstaklingar hafa leitað til lækna heilsugæslunnar með sín einkenni. Ennfremur er ekki hægt að sjá fjölgun sjúkdómseinkenna eða aukna sölu lyfja í gagnagrunnum Embættis landlæknis hjá íbúum á svæðinu. Þessar upplýsingar útiloka hins vegar ekki hugsanleg heilsufarsáhrif hjá nærliggjandi íbúum.

Íbúar í nágrenni kísilverksmiðjunnar sem finna fyrir heilsufarseinkennum sem þeir telja að stafi af mengun frá verksmiðjunni eru hvattir til að leita til heilsugæslu Suðurnesja til skoðunar svo hægt verði að kortleggja betur þau heilsuspillandi áhrif sem hugsanlega stafa af menguninni.

 

Reykjavík, 13.03.2017

Sóttvarnalæknir

Umhverfisstofnun