Stök frétt

Álag á ferðamannastaði hefur aukist mjög samfara sprengingu í heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands og er ekkert lát á.

Umhverfisstofnun hefur víðtækt verndunarhlutverk er kemur að náttúru Íslands og þá einkum er varðar friðlýst svæði. Forvitnilegt er í samræmi við kröfur um verkefni Umhverfisstofnunar að rekja nokkrar tölur um áætlaðan fjölda á viðkomustaði hérlendis og álag af mannavöldum.

Ferðamálastofa áætlar út frá svörum úr ferðavenjukönnun erlendra gesta að sumarið 2016 hafi fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll verið 664.113 talsins. Í könnun Ferðamálastofu svo eitt dæmi sé nefnt sögðust 71,2% aðspurðra hafa heimsótt Suðurland.  Má því gróflega áætla að tæplega 473 þúsund þeirra erlendu ferðamanna sem til landsins kom hafi heimsótt landshlutann.

Með sömu aðferð, þótt hafa verði fyrirvara á fullri nákvæmni talnanna, heimsótti nálega annar hver erlendur ferðamaður Norðurland sumarið 2016 eða 333.400 gestir. Tæplega tvöfalt fleiri erlendir ferðamenn heimsóttu Reykjavík. 95,6% allra erlendra ferðamanna höfðu viðdvöl í höfuðborginni sumarið 2016, alls um um 635.000 erlendir gestir.

Svo nokkrir vinsælir viðkomustaðir séu valdir af handahófi út frá tölum Ferðamálastofu má áætla að 23,4% erlendra gesta hafi sumarið 2016 sótt Bláa lónið eða 155.400 manns.

Um 40% heimsóttu Ásbyrgi-Dettifoss, þar sem enn horfir í að uppbyggingu Dettifossvegar verði frestað þrátt fyrir mikið álag. 62,6% erlendra gesta sóttu Geysi-Gullfoss heim sumarið 2016 eða hvorki fleiri né færri en 415.700 manns. Eru þá íslenskir gestir ónefndir.

Hér má nálgast nánari upplýsingar og tölur.