Stök frétt

Landvarsla að vetri er erfiðari en á sumrin vegna tíðarfars að sögn Hákonar Ásgeirssonar, sérfræðings Umhverfisstofnunar á Suðurlandi. Huga þarf betur að öryggi ferðamanna að hans sögn. Svæðin eru viðkvæmari fyrir miklum fjölda ferðamanna þegar jörð er ekki frosti eða snævi þakin. Gróður verður berskjaldaður fyrir traðki þegar hann er í dvala og jörð ekki frosin eða undir snjó. Í mildu vetrarárferði eins og nú gæti tjón af völdum ágangs ferðamanna orðið meira en ella.

„Ýmis svæði liggja undir skemmdum,“ segir Hákon.

Hann telur einsýnt að spjöll gætu víða komið í ljós í vor, sem kalli á frekari verndun og uppbyggingu vegna ferðamannastraums.

Grasflötin mjög illa farin

Dæmi um svæði sem hafa farið illa í vetur vegna bleytu og þýðu er við Skógafoss. Grasflötin fyrir framan fossinn er mjög illa farin að sögn Hákonar, þar sem gróðurinn gat ekki varið sig með frosinni jörð eða snjó. Mesta fjölgun ferðamanna er yfir vetrarmánuðina. Í vetur hefur þeim fjölgað þannig að ekki er að verða mikill munur á aðsókn milli sumars og vetrar. Landverðir eru þó að sögn Hákonar eigi að síður vart sjáanlegir þar sem þeir starfa að mestu bara yfir sumarmánuðina.

„Við erum enn að miða við þegar ferðamenn komu til landsins nánast einungis á sumrum, en nú eru breyttir tímar. Ferðamannatímabilið er núna allt árið um kring. Landvarsla þarf að vera í takt við  það. Sem dæmi er enginn starfandi landvörður við Skógafoss og Dyrhólaey þar sem þúsundir koma á hverjum degi,“ segir Hákon.

Að mörgu þarf því að hyggja að mati sérfræðingsins. Betri stýringu þar sem loka þarf svæðum sem eru viðkvæm eða hættuleg vegna íss og huga betur að öryggi ferðamanna.

Landvörslu allt árið

„Það er löngu orðið tímabært að hafa landvörslu allt árið um kring. Sérstaklega þarf að hafa landvörslu á fjölmennustu ferðamannastöðunum. Á Suðurlandi erum við að tala um Gullfoss, Geysi, Skógafoss og Dyrhólaey. Einnig vantar vetrarlandvörslu í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og svæðalandvörð á friðlýst svæði í Borgarfirði og nágrenni og fyrir norðan í Mývatnssveit,“ segir Hákon Ásgeirsson.