Stök frétt

Embætti landlæknis hefur birt yfirlýsingu á vef embættisins vegna arsenmengunar í Helguvík og fer hún hér á eftir óbreytt:

 Hversu mikil hætta er talin vera á alvarlegum heilsufarslegum áhrifum af völdum arsenmengunar í Reykjanesbæ?

Undanfarið hefur verið mikil umræða í samfélaginu um þau heilsufarslegu áhrif sem íbúum í nágrenni kísilverksmiðjunnar Í Helguvík kunni að stafa af völdum arsenmengunar sem þar hefur mælst. Á s.l. 5 mánuðum sem verksmiðjan hefur starfað hefur styrkur arsens í andrúmslofti í nágrenni verksmiðjunnar mælst á bilinu 6-7 ng/m3 en  umhverfismörk miðað við ársmeðaltal er 6 ng/m3

Á fundi stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir þ. 27.3.2017 var rætt hvort og hversu mikil heilsufarsleg áhrif megi búast við að sjá af völdum mengunarinnar hjá íbúum í nágrenni við kísilverksmiðjuna. Samstarfsnefnd um sóttvarnir er skipuð sóttvarnalækni, fulltrúum Umhverfisstofnunar, Matvælastofnununar og Geislavarna ríkisins en til fundarins voru einnig boðaðir yfirlæknir Vinnueftirlitsins og sérfræðingur í eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Niðurstaða fundarins var að þegar litið er til niðurstaðna erlendra rannsókna og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana þá megi álykta að styrkur arsens í nágrenni kísilverksmiðjunnar í Helguvík sé langt undir þeim mörkum sem talin eru valda bráðum alvarlegum heilsuspillandi áhrifum.

Hvað mat á langtímaáhrifum varðar er sá tími sem mengunin hefur staðið  stuttur og verulega undir þeim tíma sem það tekur að auka áhættuna á  langtíma áhrifum í einhverju mæli. Því eru taldar mjög litlar líkur á að mengunin s.l. 5 mánuði muni valda  alvarlegum heilsuspillandi áhrifum eins og krabbameini hjá íbúum í nágrenni verksmiðjunnar. Ef mengunin mun hins vegar halda áfram til nokkurra ára í svipuðu eða meira magni en nú er, þá má búast við auknum líkum á heilsuspillandi áhrifum þó ekki sé hægt að segja með vissu hversu mikil sú aukna áhætta er.

Til lengri tíma litið er því mikilvægt að ráðin verði bót á menguninni þannig að íbúar þurfi ekki að búa við þá óvissu að heilsu þeirra sé ógnað.

f.h. stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir

Sóttvarnalæknir