Stök frétt

Orkurannsóknir ehf. í Helguvík hafa sent frá sér fréttatilkynningu vegna mengunarmælinga í Helguvík. Þar er fjallað um orsök fyrri mæliskekkju Orkurannsókna ehf. og þá ekki síst á arseni, þar sem há og óútskýrð gildi höfðu mælst og leiddu til ótta og mjög sterkra viðbragða.

 „Í kjölfarið fór fyrirtækið [Orkurannsóknir ehf.] yfir þau gögn sem voru til staðar og verkferla við sýnasöfnun, auk þess sem ALS Global (www.alsglobal.se/en) í Svíþjóð, sem annast úrvinnslu og greiningar á þeim sýnum sem Orkurannsóknir safna, fóru yfir sína ferla. Við skoðun hjá ALS hefur komið í ljós að mannleg mistök hjá þeim leiddu til þess að sýnin sem send voru til Svíþjóðar voru greind með fimmfalt hærra magn málma en raun var“ segir í tilkynningu Orkurannsókna ehf.

Sænska fyrirtækið harmar mistökin og áréttar að farið verði yfir verkferla til að fyrirbyggja frekari mistök í framtíðinni.

Því er ljóst að styrkur arsens í andrúmslofti við Helguvík er vel undir umhverfismörkum.