Stök frétt

Settur var upp teljari í Dimmuborgum í Mývatnssveit í gær. Hann telur alla þá sem ganga inn um aðalhliðið niður í borgirnar. Fyrir var teljari sem telur bíla sem koma í Dimmuborgir.

Davíð Örvar Hansson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit, segir að samkvæmt fyrstu tölum hafi um 100 ferðamenn notið náttúrufegurðar Dimmuborga í gærkvöld eftir að mælirinn var settur upp.

Mælirinn er færanlegur og er ætlað að gefa upplýsingar um fjölda fólks á friðlýstum svæðum á vegum Umhverfisstofnunar.  Byrjað er í Dimmuborgum en svo fer mælirinn á flakk.

„Upplýsingarnar nýtast til að sjá hvenær fólk er flest í Dimmuborgum. Við getum nýtt þær upplýsingar til að ákvarða hvenær við viljum hafa landvörð á svæðinu, hvenær við viljum bjóða upp á fræðslugöngur til að ná til sem flestra og ekki síst mun koma í ljós hvenær mannfjöldaálag fer að valda neikvæðum áhrifum á náttúrufar, t.d. ef gróðurþekja við stígana fer að rofna,“ segir Davíð Örvar Hansen.

Samkvæmt mælingum lögðu yfir 350.000 manns leið sína í Dimmuborgir á síðasta ári.

Myndin er af Stefáni Jeppesen við nýja mælinn.