Stök frétt

Vinnustaðaátakið „Hjólað í vinnuna“ hefst í næstu viku. Þótt titill átaksins beinist einkum að hjólamáta er full ástæða til að minna á að megintilgangur átaksins er að landsmenn sleppi blikkbeljunni til og frá vinnu og noti eigið afl til að koma sér á milli.

Í reglum átaksins stendur: „Allir geta tekið þátt í Hjólað í vinnuna svo framarlega sem þeir nýta eigin orku til og frá vinnu þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskauta o.s.frv. Þeir sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð.“

Hér gefst því gott tækifæri til að hvíla einkabílinn. Fátt jafnast á við góða útivist og hreyfingu. Það er bæði umhverfisvænt og heilsusamlegt að ferðast fyrir eigin „vélarafli“ og fyrirtækjum gefst kostur á að halda til haga hve margir taka þátt og bera sig saman við aðra vinnustaði, búa til skemmtilega keppni!

 Umhverfisstofnun hvetur Íslendinga, háa og lága um allt land, til að taka þátt í  uppbyggilegri áskorun.

 Átakið hefst 3. maí og lýkur 23. sama mánaðar.