Stök frétt

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ítrekaði mikilvægi hvers einstaklings í umhverfisvernd þegar hann ávarpaði ársfund Umhverfisstofnunar sl. föstudag. Guðni minnti á mikilvægi hafsins, mengun, loftslagsmál, viðbragðsmál. Hann sagði að trúverðugleiki Íslands væri mikill þegar kæmi að því að tala fyrir því sem við þekktum vel. Sem eyþjóð úti í miðju Atlantsshafi væri líklegra að hlustað yrði á Íslendinga um málefni hafsins en í öðrum kimum þar sem ekki væri augljóst að Íslendingar byggju yfir sérfræðiþekkingu. Við þyrftum að vera iðin við að vara við plastflákunum í hafinu, súrnun sjávar, hnattrænni hlýnun. Mikilvægt væri að vernda fiskistofna landsins.

Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, lagði þá línu snemma á ársfundinum að allt væri loftslagsmál. Varð það stef að rauðum þræði og hentu margir á lofti út fundinn. Hluti fyrirlesara tók einnig undir þá stefnu Umhverfisstofnunar að hamla gegn sóun, ofnýtingu og græðgi. Forseti Íslands var í hópi þeirra sem vöruðu við sinnuleysi og notaði Guðni lokaorð sín til að ítreka að ekki gengi að segja bara: „Æi, það er bara svo gott að hafa tvo bíla, það er svo gott að geta hent ananasnum af pizzunni!“

Sjá upptökur af ársfundinum og þar á meðal erindi forseta Íslands hér: