Stök frétt

Fyrsta skemmtiferðaskipið kom í höfn á Akureyri um síðustu helgi. Eins og árin á undan fór mikill fjöldi farþeganna austur í Mývatnssveit með rútum meðan skipið lá við bryggju. Talning ferðamanna við eina vinsælustu náttúruperlu Mývatnssveitar gefur til kynna að skipakomunum fylgi aukaálag á viðkvæm svæði.

Í apríl voru settir upp teljarar til að mæla umferð gangandi manna. Samkvæmt teljara í Dimmuborgum varð aðsóknarsprenging þar sama dag og farþegarnir úr skemmtiferðaskipinu voru á faraldsfæti. Um 1.000 gestir sóttu Dimmuborgir um hádegisbilið síðastliðinn laugardag samkvæmt teljaranum,  margföld sú umferð sem er þar að jafnaði dag hvern á þessum árstíma. Að sögn Davíðs Örvars Hanssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun í Mývatnssveit, veldur slíkur fjöldi á svo skömmum tíma töluverðu álagi. Hann segir mikilvægt að skipulagning hópferða, ekki síst þegar um er að ræða þúsundir einstaklinga, taki mið af því að dreifa komum yfir sem lengstan tíma. „Það bætir bæði upplifun gesta af náttúruperlum og dregur úr álagi á náttúrugæði,“ segir Davíð.

Vænta má þess að umferð í Dimmuborgum muni enn vaxa í sumar þegar háönn skapast í ferðaþjónustu.