Stök frétt

Er hægt að framleiða alkohól úr mysu? Hvernig næst collagen úr fiskroði? Hvað með vinnslu fæðubótarefna úr innmat lamba eða snyrtivörur úr kaffikorgi?

Svör við þessum spurningum og mörgum öðrum fást á ráðstefnu um nýsköpun og lífrænar aukaafurðir sem fram fer á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 24. maí nk. frá kl. 09-14.

Umhverfisstofnun er í hópi aðstandenda ráðstefnunnar. Meðal fyrirlesara eru Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, Sigríður Þormóðsdóttir, Innovation Norway, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og margir fleiri.

Í dag eru urðuð um 97.000 tonn af lífbrjótanlegum úrgangi á Íslandi árlega og má rekja um 8% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til meðhöndlunar úrgangs. Meðal annars er verið að urða nokkurt magn af slátur- og fiskúrgangi auk þess sem matvæli eru um helmingur þessa úrgangs. Þarna liggja mikil tækifæri þegar kemur að því að draga úr losun. Bætt nýting hráefna er ekki bara liður í því að minnka umhverfisáhrif frá auðlindanotkun heldur einnig spurning um að spara peninga og fá sem mest fyrir vöruna.

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Úrgangur í dag – auðlind á morgun.

Ráðstefnan er lokaliður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni um Norræna lífhagkerfið (NordBio). Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda. Lífhagkerfið snýst um umskipti til vistvæns samfélags sem er gert með að nýta aukaafurðir og skapa hringrásarkerfi og sjálfbærar staðbundnar lausnir. Markmið þessara umskipta er að minnka álag á takmarkaðir lífauðlindir okkar og nálgast sjálfbærari þróun.

Skráning hér.

Nánari upplýsingar gefa Birgitta Stefánsdóttir í síma 8487282 og Hildur Harðardóttir í síma 6266404.