Stök frétt

Alþjóðlegur dagur hafsins er í dag en hann er haldinn 8. júní ár hvert. Yfirskrift dagsins í ár er “Okkar höf, okkar framtíð” og er sjónum sérstaklega beint að plastmengun í hafi og mögulegum leiðum til að draga úr henni (sjá nánar hér). Haf þekur um það bil tvo þriðju hluta jarðar og er mikilvægt öllu lífi á jörðinni. Í höfunum myndast mikið af því súrefni sem við öndum að okkur og þau tempra meðal annars loftslag og eru mikilvæg uppspretta fæðu fyrir mannkynið. Höfin eru einnig efnahagslega mikilvæg fyrir lönd þar sem atvinnuvegir byggja á ferðamennsku og fiskveiðum og annarri nýtingu sjávarauðlinda auk þess sem þau eru mikilvæg fyrir alþjóðlega flutninga. Höfin eru hins vegar undir miklu álagi, þ. á m. vegna ýmiss konar rusls og mengunarefna sem berast til sjávar og ógna þar lífríki. Ekki síst hafa komið í ljós skaðleg áhrif plasts í hafi sem ekki eyðist heldur brotnar sífellt niður í smærri einingar, auk þess sem skaðleg efni geta loðað við plastagnirnar og þannig dreifst um hafið. Dýr geta flækst í plastúrgangi, s.s. í netum eða plastpokum, en þau taka einnig plast í misgripum fyrir fæðu.

Vegna þessa er mikilvægt að draga úr allri losun mengunarefna og koma í veg fyrir að rusl berist til sjávar. Þar verða allir að taka höndum saman og eitt af því sem allir geta gert er að draga verulega úr notkun plastpoka og plastumbúða (sjá einnig hér.

Umhverfisstofnun mun taka þátt í Hátíð hafsins dagana 10. og 11. júni og vera með sýningu í tjaldi á Grandagarði, við sjóminjasafnið Víkina. Þema sýningarinnar er “Minnkum plastnotkun”. Leggur Umhverfisstofnun áherslu á minni notkun einnota plasts og að ýmislegt annað sé hægt að nota í staðinn fyrir plast. Einnig er mikilvægt að flokka plast frá öðru rusli og fyrirbyggja að plast endi í sjónum. Talið er að á hverju ári komi 40 kg af umbúðaplasti frá hverjum Íslendingi. Í tjaldi Umhverfisstofnunar verða gefnir margnota grænmetis- og ávaxtapokar sem hægt er að nota í búðinni. Auk þess geta gestir hátíðarinnar tekið þátt í getraun og eiga möguleika á að vinna hvalaskoðunarferð fyrir fjögurra manna fjölskyldu í boði fyrirtækisins Eldingar. Frekari upplýsingar um Hátíð hafsins er að finna á heimasíðu hátíðarinnar.