Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur nýverið gert úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara fyrir árið 2016 með hliðsjón af gögnum frá Tollstjóra og Umhverfisstofnun. Vöruflokkar sem falla undir plöntuverndarvörur eru illgresiseyðar, sveppaeyðar, skordýraeyðar og stýriefni til notkunar í landbúnaði og garðyrkju. Til að fá heimild til tollafgreiðslu fyrir plöntuverndarvörum þarf að óska eftir áritun Umhverfisstofnunar, sem staðfestir að varan hafi markaðsleyfi hér á landi.

Niðurstöður úttektarinnar sýna að innflutningur plöntuverndarvara nam 12,9 tonnum á árinu 2016. Innflutningurinn dróst saman um 12,7 tonn (50%) frá fyrra ári.  Samdráttinn má fyrst og fremst rekja til þess að sala á illgresiseyðinum Casoron G varð óheimil eftir 31. desember 2015. Þá fer plöntuverndarvörum sem hafa markaðsleyfi hér á landi fækkandi. Óskað var eftir heimild Umhverfisstofnunar vegna tollafgreiðslu fyrir yfirgnæfandi meirihluta varanna (96%). Úttektin gefur því raunsanna mynd um hve mikið af plöntuverndarvörum fer á markað árlega hér á landi.

Í Aðgerðaráætlun um notkun varnarefna 2016-2031 eru settir fram áhættuvísar um innflutning plöntuverndarvara. Nýtast upplýsingar úr úttektinni til að reikna áhættuvísana út. Samkvæmt aðgerðaráætluninni skal innflutningur ekki nema meiru en 12 tonnum alls á ári. Niðurstöður verkefnisins eru að það markmið sé innan seilingar.

Hér eru nánari upplýsingar um úttektina.