Stök frétt

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að frá og með 1. júní 2017 tók að fullu gildi hér á landi Evrópureglugerð um flokkun, merkingu og pökkun hættulegra efna, sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 415 frá 2014. Þar með er lokið löngu aðlögunartímabili hvað þetta varðar og því ekki lengur heimilt að hafa á markaði vörur sem innihalda hættuleg efni séu þær merktar samkvæmt eldri reglum.

Helstu sjáanlegu breytingarnar við innleiðinguna eru fólgnar í því að appelsínugulu varnaðarmerkin, sem verið hafa í notkun um árabil, heyra nú alfarið sögunni til. Í stað þeirra eru komin ný hættumerki, sem í raun hafa verið í notkun um nokkurn tíma samhliða þeim gömlu. Nýju hættumerkin eru tígullaga á hvítum grunni og innan í tíglinum er viðeigandi mynd til að vekja athygli á hættunni sem verið er að lýsa. Almenningur á að geta lesið og skilið upplýsingar um notkun og varúðarráðstafanir á umbúðum og eiga merkingarnar að vera á íslensku.

Það er á ábyrgð þeirra sem setja á markað vörur sem innihalda hættuleg efni að sjá til þess að merkingar á umbúðum séu uppfærðar að gildandi reglum. Verslanir bera ábyrgð á því að þar séu einungis í sölu vörur sem uppfylla kröfur um merkingar.

Smelltu hér til að kynna þér málið nánar.