Stök frétt

Á Hátíð hafsins stóð Umhverfisstofnun fyrir getraun um notkun plasts og plastmengun og þakkar stofnunin öllum þeim sem tóku þátt í getrauninni. Dregið hefur verið úr svörum sem bárust og er vinningshafinn Elín Eir Andersen. Fær hún í verðlaun gjafabréf í hvalaskoðunarferð fyrir fjögurra manna fjölskyldu með fyrirtækinu Eldingu.

Alls tóku 93 einstaklingar þátt í getrauninni.

Getraunin var byggð á upplýsingum sem komu fram á veggspjöldum á sýningu sem  Umhverfisstofnun var með á Hátíð hafsins um plast og áhrif þess á umhverfið, hvernig plast berst í hafið og hvað við getum gert til að draga úr notkun plasts. Áætlað er að fjögurra manna fjölskylda á Íslandi noti 13 kg af umbúðaplasti á mánuði að meðaltali. Inni í þeirri tölu er plast frá heimilum, verslun og þjónustu, skólum, fyrirtækjum og annarri starfsemi sem fjölskyldur landsins taka þátt í. Mikilvægt er að draga úr notkun plasts í okkar daglega lífi og nota fjölnota poka og umbúðir. 

Rétt svör við getrauninni eru þessi:

  1. Hvað þýðir þetta merki? Sýnir að viðkomandi verslun eða þjónustuaðili noti ekki burðarplastpoka.
  2. Hvað er t.d. hægt að nota í staðinn fyrir plaströr í afmælisveislu? Lakkrísrör
  3. Af hverju geta fiskar, selir og önnur dýr í sjónum drepist vegna plasts í sjónum (nóg að nefna eitt dæmi)? Halda að plast sé fæða, geta flækt sig í plasti eða kafnað.
  4. Hvernig getur örplast borist í sjóinn (nóg að nefna eitt dæmi)? Með skólpi eða afrennsli frá landi.
  5. Nefndu eina snyrtivöru sem getur innihaldið litlar plastkúlur (örplast)? T.d. tannkrem.