Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur borist erindi Guðrúnar Maríu Valgeirsdóttur dags. 7. júlí 2017 þar sem því er beint til Umhverfisstofnunar að loka ferðamannastöðum í landi Reykjahlíðar vegna álags af völdum ferðamanna. Staðirnir eru Hverir, Leirhnjúkur og Víti við Kröflu.

Í erindinu kemur fram að svæðin hafi á síðustu árum látið á sjá vegna álags og aðgerðarleysis auk þess sem öryggi ferðamanna sé stefnt í hættu við sjóðheita hveri. Mikilvægt sé að brugðist verði við umferð við svæðin með markvissri landvörslu og lágmarks þjónustu við svæðin.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd getur Umhverfisstofnun í verndarskyni, að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags eða landeiganda eða að eigin frumkvæði, takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum ef hætta er á verulegu tjóni af völdum ágangs á svæði. Umhverfisstofnun ber að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélag, landeiganda og aðra hagsmunaraðila. Verkferill stofnunarinnar er eftirfarandi:

Ábending kemur frá sveitarfélagi, landeiganda, landverði, starfsmanni Umhverfisstofnunar, systurstofnum Umhverfisstofnunar eða hagsmunaaðila um að hætta sé á verulegu tjóni af völdum ágangs

 1. Umsagna óskað frá sveitarfélagi, landeiganda og rétthafa lands og hagsmunaaðila sem nýtir svæðið. Sent er bréf/tölvupóstur á stærstu hagsmunaaðilana í hverju tilviki fyrir sig. Þar sem við á er jafnframt óskað almennt eftir umsögnum á heimasíðu Umhverfisstofnunar
 2. Svæði tekið út af starfsmanni Umhverfisstofnunar/vísindamanni til að meta álag á svæðið
  1. Er hætta á verulegum eða óafturkræfum skemmdum?
  2. Er um að ræða viðkvæma náttúru eða lífríki?
 3. Unnið úr umsögnum
 4. Afgreiðslufundur hjá Umhverfisstofnun þar sem metið er hvort takmarka þurfi umferð og umfang takmarkana ákveðið
  1. Fjöldatakmarkanir?
  2. Lokun á ákveðnum tímum árs?
 5. Tillaga um lokun svæðis send til ráðherra umhverfis- og auðlindamála til staðfestingar
 6. Ákvörðun um takmörkun á umferð um svæði auglýst í B-deild stjórnartíðinda
 7. Sett upp skilti/merkingar á svæði um takmarkanir á umferð. Tilkynningar sendar út til ferðaþjónustuaðila sem nýta svæðið
 8. Eftir 1 ár er ákvörðunin endurmetin
 9. Sérfræðingur og/eða vísindamaður taka út ástand svæðis
 10. Gögn metin
 11. Umsagnar óskað frá sveitarfélagi, landeiganda eða rétthafa lands og hagsmunaaðila
 12. Ferlið endurtekið ef þörf er á. Áætlaður málshraði er að hámarki 4 vikur þar af er áætluð 1 vika í umsagnarfresti.

 

Ef niðurstaða stofnunarinnar verður að loka eigi svæðunum verður tillaga þess efnis send  umhverfis- og auðlindarráðherra til staðfestingar. Lokun svæða samkvæmt 25 gr. náttúruverndarlaga getur varað allt að einu ári.

Óskað er umsagnar ekki síðar en næsta miðvikudag, 19. júlí nk.

Umsögn sendist á Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða rafrænt á Umhverfisstofnun@Umhverfisstofnun.is með tilvísun í málsnúmer: UST201707-065.

Myndina tók Davíð Örvar Hansson við Hveri, austan Námaskarðs, í dag.