Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir PCC BakkiSilicon hf. Tillagan gerir ráð fyrir að heimilt verði að framleiða allt 66.000 tonnum á ári af hrákísli og allt að 27.000 tonnum af kísildufti/kísilryki og 6.000 tonnum af málmleif og gjalli og 1.500 tonnum af forskiljuryki. Tillagan ásamt fylgiskjölum og umsókn rekstraraðila mun verða aðgengileg hjá sveitarfélaginu Norðurþing á tímabilinu 20. júlí til 15. september 2017. Meðfylgjandi er auglýst tillaga Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin, drög að vöktunaráætlun, tilkynning til Skipulagsstofnunar og matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar. Þar má nefna að Skipulagsstofnun taldi í sínu áliti að áhrif framkvæmdarinnar yrðu talsvert neikvæð á loftgæði og á landslag og ásýnd svæðisins. Þá fylgir einnig sérstök greinargerð um málið. Í tillögunni er tekið fullt tillit þeirra gagna sem fram komu við mat á umhverfisáhrifum en einnig unnið nokkuð nánar nokkra mengunarþætti, til dæmis þungmálmalosun til lofts.

Umhverfisstofnun benti á við mat á umhverfisáhrifum sem fram fór árið 2013 að loftgæði muni versna umtalsvert við að setja upp verksmiðju af þessu tagi. Engu að síður muni þau, ef forsendur standast, verða innan þeirra marka sem íslenskar reglugerðir setja og hægt er að draga úr áhrifunum með mótvægisaðgerðum. Mengunarvarnir sem verksmiðjunni er með starfsleyfinu gert að sinna beinast mjög að því að takmarka einmitt þessi áhrif.

Ákvæði um lykt voru sett beinlínis vegna reynslu af annarri sambærilegri verksmiðju, þ.e. United Silicon hf. Þá skilaði fyrirtækið minnisblaði vegna gangsetningarferlis. Þar er m.a. vakin athygli á að notuð verða forbökuð skaut í verksmiðjunni, svokölluð grafítiseruð skaut. Rekstraraðili álitur að þessi tækni hafi minnst umhverfisáhrif af þeim valkostum sem til greina koma til greina við að breyta raforku í varmaorku í ljósbogaofnum.

Nánari upplýsingar um vinnslu starfsleyfistillögunnar koma fram í áðurnefndri greinargerð Umhverfisstofnunar um málið.

Fyrirhugað er að halda opinn kynningarfund um tillöguna á auglýsingatíma. Fundurinn verður haldinn í sveitarfélaginu og verður nánar auglýstur síðar.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 15. september 2017.

Tengd skjöl