Stök frétt

Umhverfisstofnun stendur á morgun ásamt Vakandi, Gamla Bíói og Hrefnu Sætran fyrir opnu hófi fyrir almenning sem nefnist "Óhóf". Spjótum verður beint að matarsóun. Viðburðurinn fer fram í Petersen svítunni í Gamla bíói og stendur frá kl. 17-19. Boðið verður upp á drykki úr illseljanlegum og útlitsgölluðum vörum s.s. tómötum sem engin ástæða er til að henda þótt þeir láti á sjá. Sama á við um aðrar veitingar í boðinu.

"Tilgangurinn með Óhófinu er að vekja athygli á hve miklum matvælum við sóum árlega. Við lifum á tímum óhófs þar sem þriðjungi matvæla er fargað einhversstaðar í virðiskeðjunni. Þetta þarf að breytast. Við viljum sýna neytendum og fyrirtækjum að það eru til leiðir til að minnka matarsóun,“ segir Hildur Harðardóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Spurð um hollráð til að sporna við matarsóun nefnir Hildur  sem dæmi mikilvægi þess að frysta matvæli áður en þau skemmist. Einnig að nýta afganga og taka ekki „best fyrir“ merkingar allt of hátíðlega.

Allir eru velkomnir í Óhófið á morgun.