Stök frétt

Umhverfisstofnun fer með umsjá friðlýstra svæða á okkar fagra landi. Mikil ábyrgð fylgir því starfi, enda segir sagan að samlíf manns og náttúru hafi í tímanna rás gengið misjafnlega. Mörg dæmi eru um slæma umgengni eða ofnýtingu á landsins gæðum víða um heim, rányrkju, óafturkræf spjöll sem stundum hafa leitt til skorts á lífsgæðum fólks í kjölfar uppgangstíma. Þá er ógetið þeirrar skyldu mannskepnunnar að vernda viðkvæm og einstæð svæði, gera það sem hægt er að gera til að koma einstökum verðmætum óspjölluðum til komandi kynslóða.

Hagræn ábyrgð er stundum vanmetin í þessum efnum. Það má spyrja þeirrar spurningar hvort þessi misserin sé vandfundin meiri efnahagsleg auðlegð fyrir Íslendinga en náttúra Íslands, okkar fagra og oft á tíðum afskekkta landslag (sem áður þótti einskis virði ef það hét ekki neitt!). Hin ósnortnu víðerni Íslands laða hingað til lands verur úr öllum kimum alheimsins. Þau laða að fólk sem segist fyllast nýrri orku um leið og það kemur út fyrir þéttbýlisstressið og getur umfaðmað náttúru Íslands. Það faðmlag verður að vera með vilja beggja aðila, bæði manns og náttúru.

Náttúran lifir hverja manneskju, en ekki öfugt, burtséð frá því hvernig mannskepnan kemur fram við náttúruna eða hvernig náttúran kemur fram við mannfólkið. Ævi hverrar mannskepnu er varla sekúndubrot miðað við jarðsöguna. Þeir eru því margir sem finna til ákveðinnar auðmýktar þegar þeir kynnast þeim einstaka fjölbreytileika sem er að finna í náttúrunni hérlendis.

Sú stefna hefur verið mörkuð að heimila aðgengi að nánast öllum náttúruperlum Íslands, harðgerðum sem viðkvæmum og að mestu óháð efnahag hvers og eins. Fyrir það þakkar ferðafólk en þetta fyrirkomulag er áskorun á tímum þegar ferðamannastraumur hefur margfaldast og slær met frá ári til árs.

Það er ekki síst vegna þessarar áskorunar sem Umhverfisstofnun hyggst næstu daga varpa ljósi á sjónarmið landvarða, náttúrusérfræðinga, stöðvarstjóra, þjóðgarðsvarða og fleiri starfsmanna stofnunarinnar sem vinna við verndun viðkvæmra svæða og gegna afar dýrmætri upplýsingagjöf til gestanna okkar. Samtöl við þessa „útverði íslenskrar náttúru“ ef svo mætti kalla þennan hóp, benda til að hugsjón, ást og virðing gagnvart einhverju sem er stærra en mannskepnan keyri hjörtu þeirra áfram. Umhverfisstofnun finnst mikilvægt að varpa ljósi á störf þessa hóps og aðstæður, mikilvægt að hlusta á raddir þeirra og miðla þeim áfram, því vinna þeirra getur haft mikið um það að segja hvort náttúruperlur nái áfram að glitra, hvort svæði treðst út, missir gildi sitt, eyðileggst jafnvel, eða hvort heimamenn sem gestir eigi þess kost áfram að ganga um okkar einstæðu náttúru í glöðum takti á stígum sem bera þunga mannsins í stríðum straumum eins og nú háttar til. Sjálfbært samband manns og umhverfis ætti að vera leiðarstefið og þótt fleiri starfsmenn og fleiri stofnanir gegni dýrmætu hlutverki mætti hugsa sér að finna megi samnefnara í úrtakinu svo draga megi lærdóm af. Við hefjum leikinn á Vestfjörðum.

 „Ekki alveg ein hér úti á Ballarhafinu“

Edda Kristín Eiríksdóttir er eini starfsmaður Umhverfisstofnunar með aðsetur á suðurfjörðum Vestfjarða. Hún er sagnfræðingur að mennt með diplóma í stjórnsýslu auk þess að vera lærður leiðsögumaður. Hún flutti í ársbyrjun frá Reykjavík til Vestfjarða en atvinnusvæðið er henni ekki framandi, þar sem hún er ættuð að vestan, fædd á Patreksfirði og uppalin að nokkru á Barðaströnd.

„Ég hef umsjón með friðlýstum svæðum á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir Edda þegar fundum okkar ber saman á skrifstofu hennar á Patreksfirði og spurt er um starfið. Tekið skal fram að fleiri landverðir en Edda standa vaktina á þessu mikilfenglega svæði, einkum yfir sumartímann.

Kirkjuturn Patreksfjarðarkirkju blasir við út um gluggann. Við sjóndeildarhring rísa fjöllin, hafið og fegurðin sem orðið hefur svo mörgu skáldinu að innblæstri. Það þarf að gæta einstæðrar náttúrufegurðar Vestfjarða sem og annars staðar á landinu og til þess þarf gott og duglegt fólk.

„Hér bíða mörg mjög brýn verkefni,“ segir hún alvarleg á svip þegar talið berst að ferðamennsku og viðkvæmu sambandi manns og náttúru fyrir vestan.

Þau friðlýstu svæði sem Edda  hefur umsjón með fyrir vestan eru Flatey í Breiðafirði, Hrísey í Reykhólahreppi, fossinn Dynjandi í Arnarfirði, Surtarbrandsgil og friðlandið í Vatnsfirði. Þarna er margar dýrmætar perlur að finna. Þótt Vestfirðir séu það svæði landsins sem færri ferðamenn heimsækja en t.d. sunnan- og norðanlands þá blasir við að ágangur ferðamanna er áskorun þar líka eins og fréttir af Dynjanda, Hornströndum og Látrabjargi vitna um.

„Við erum að vinna að friðlýsingu á Látrabjargi,“ segir Edda. Hún nefnir fleiri staði sem hún hefur umsjón með eða heimsækir reglulega s.s. Rauðasand sem er á náttúruminjaskrá, einstætt svæði vegna litarins sem rekja má til skelja  hörpudisks sem er algengur á Breiðafirði. Fjöldi fólks heimsækir þessi svæði yfir sumartímann.

Brot á reglum oft ekki meðvituð

Edda svarar tölvupóstum og tekur nokkur símtöl þennan sólríka dag þegar Vestfirðir skarta sínu fegursta. Næst á dagskrá hennar er vettvangsferð að Látrabjargi en þar bíða ýmis verkefni. Upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar fær að slást með í för. Blasir við töluverður fjöldi ferðafólks þegar við mætum á svæðið. Það er logn á Látrabjargi og  heyrir til tíðinda, því þarna er oft æði vindasamt.

Edda tekur allt rusl sem hún finnur og stingur í maíspoka. Upplýsingafulltrúinn reynir að hjálpa til og grípur upp bananahýði sem óprýðir mikilfengleika bjargsins. „Ég skynja stundum þann misskilning hjá ferðamönnum að þeir haldi að það sé í lagi að kasta frá sér lífrænu sorpi af því að það brotni upp. Það er nú ekki þannig. Bananar eru ekki hluti af náttúru Látrabjargs,“ segir Edda.

Þegar ferðafólk sér á klæðnaði hennar og framgöngu að hún er opinber starfsmaður sem vinnur við umhverfisvernd þessarar afskekktu náttúruperlu sópast gestir til hennar, sumir hverjir með margar spurningar á vörunum. Á svona slóðum fýsir ferðafólk oft í mun meiri upplýsingar en það hefur aðgang að. Upplýsingaskilti hjálpa til en betur má ef duga skal í þeim efnum eins og víðar á landinu.

Við ræðum saman á göngunni og það er skoðun Eddu að brýnt sé að koma á daglegri landvörslu í Látrabjargi. Sú skoðun fær vængi þegar íslenskir ferðamenn sjást á vappi með hund í bandi nálægt hópi fugla. Hundar geta haft mjög vond áhrif á fuglalífið, einkum á varptíma. Edda hleypur því til og stöðvar ferðalag hundsins áður en skaði hlýst af. Eigandi hundsins fer ögn lúpulegur með gæludýrið sitt af vettvangi og lokar það inni í bíl. Hundurinn er vonsvikinn með framgang mála en eigandinn hafði talið leyfilegt að vera með hund ef hann væri í bandi. Að hundabann ætti aðeins við lausagöngu hunda, sem er misskilningur. Þótt það skapist örlítill árekstur vegna þessa atviks skilja þau Edda landvörður og gesturinn í góðri sátt. Það sést langar leiðir að útverðir íslenskrar náttúru þurfa að hafa lempni  og auðmýkt í sínum beinum en svo eru líka augnablik þar sem reynir á ákveðni, skörungsskap og framkvæmdavit landvarða. Edda segir mikilvægt að muna að oft brjóti gestir á vernduðum svæðum reglur vegna fákunnáttu fremur en að um ásetning sé að ræða. Þess vegna sé mikilvægt að ferðamenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum.

Stórfellt átak þarf til

-Þyrfti að auka landvörslu hér í bjarginu?

„Já, það þarf að efla gæslu, viðveru og upplýsingagjöf hér í Látrabjargi. Stórefla þetta allt saman. Það er algjört forgangsatriði vegna þess að bjargið er farið að láta á sjá. Það þarf að stýra betur umferð um svæðið, það þarf að byggja upp fleiri innviði. Það er sameiginlegt mat allra sem hafa komið að málum hér, mat ferðamanna, landeigenda, sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar,“ svarar Edda ákveðið.

Hún segir að ræða þurfi upphátt og opinskátt að Látrabjarg sé einn þeirra staða sem hafi drabbast niður og brýnt sé að grípa til ráðstafana. Sár hafi myndast á bjarginu þar sem göngustígur sé á köflum orðinn fjór- eða fimmfaldur. Lundanum hafi fækkað mikið, hann færi sig til undan ágangi. „Hér verpa nokkrar  ábyrgðartegundir Íslendinga svokallaðar, tegundir þar sem stór huti stofnsins á heimsvísu byggir afkomu sína á tilteknum svæðum innan einstakra þjóðríkja. Hér er líka stærsta álkuvarp í Evrópu og ritan er einnig mjög áberandi. Besta mögulega niðurstaðan væri að mínu mati sú að fá friðlýsingu og að Umhverfisstofnun fengi fulla umsjá yfir bjarginu. Við gætum þá lokað Látrabjargi á viðkvæmum tímabilum þegar fuglinn þarf að fá frið. Lundinn fer ekki í holur ef það er fólk í kringum hann. Nú orðið má segja að yfir sumarið sé fólk allan sólahringinn á Látrabjargi, þótt bannað sé að tjalda hér. En svona ferlar geta verið flóknir. Inn í þessi friðlýsingarmál blandast ósætti um deiliskipulag, kærðar framkvæmdir sveitarfélagsins og fleira.“

Það blasir við að spyrja sérfræðinginn hvaða gildi fylgi friðlýsingum?

„Við friðlýsum til að vernda svæði, friðlýsum þau svo staðir tapi ekki vernargildi sínu,“ svarar Edda. „Okkur ber að koma þessum svæðum óskemmdum til komandi kynslóða,“ bætir hún við.

Líflegt en stundum einmanalegt starf

Leiðin til baka til Patreksfjarðar liggur að hluta yfir allhrikalegan fjallveg. Sú spurning kviknar hvort stundum sé svolítið einmanalegt og jafnvel ögn varasamt að vinna á svo afskekktri einmenningsstöð? Þá ekki síst á dimmum vetrum?

„Starfið getur verið einmanalegt en það er líka oft ansi líflegt. Ég starfa í húsnæði þar sem fleiri stofnanir eru með starfsemi og þar fáum við félagsskap hvert af öðru. Samstarfið er líka mjög gott við höfuðstöðvar Umhverfisstofnunar. Ég þarf að sækja töluvert mikið suður, fara á fundi og aðra viðburði. Þá hittir maður kollegana. Ég er því ekki alveg ein hér úti á Ballarhafinu, róandi á kajaknum,“ svarar Edda og brosir.

Frekara samtal leiðir í ljós að starf Eddu er í raun tvískipt eftir árstíðum.

„Hér á Vestfjörðum þar sem ferðamenn eru mun minna á ferðinni en víðast annars staðar á landinu þá einbeitir maður sér að stjórnsýslunni á vetrum en landvörslunni á sumrin. En stjórnsýslan hvílir sig aldrei þannig að stundum er mikið að gera í hvoru tveggja. Ég nýt þessarar fjölbreytni, mér finnst frábært að geta verið úti að garfa og græja milli þess sem maður vinnur skrifstofustörfin.“

-En eiga landverðir, þessi hópur fólks sem kalla mætti „útverði íslenskrar náttúru“eitthvað sameiginlegt að þínu mati?

„Ég hef heyrt að landvörðum fyrri tíma hafi verið lýst þannig að þótt þeir væru að mestu án búnaðar og létu sér nægja að hírast einhvers staðar í tjaldi og ynnu nánast allan sólahringinn þá hafi þeim fundist það svo mikil forréttindi að fá að sinna starfinu að þeir hafi látið það yfir sig ganga að rukka aðeins fyrir brot eigin vinnutíma. En þetta er blessunarlega liðin tíð þótt tilfinningar landvarða séu alltaf hinar sömu til náttúrunnar frá tíma til tíma. Landverðir hafa, held ég, það sem við getum kallað ást á náttúrunni og landinu. Landverðir eru meðvitaðir um að við þurfum að lifa í sem bestri sátt við landið okkar en við munum alltaf skilja eftir okkur ummerki. Ef við vinnum í því að minnka þessi ummerki, einkum á stöðum sem þykja merkilegir og eru viðkvæm svæði þá er ekki barist til einskis.“

Mælistikur náttúrufegurðar margvíslegar

Margir Íslendingar hafa farið með erlendum vinum í ferðalög innanlands á afskekktar slóðir. Reynsla sumra er að myndavélar Íslendinga beinist oft að öðrum fyrirbærum í náttúrunni en ef útlendingur rýnir í linsuna. Við Íslendingar gætum því borið annað skynbragð á fegurð náttúrunnar en gestirnir. Það hangir e.t.v. saman við nytjastefnu og von okkar um lífsbjargir sbr. ummæli Veigu í Neslöndum þegar hún sagði, spurð um náttúrufegurð, að það væri fallegt í Mývatnssveit þegar veiðin í vatninu væri góð.

„Eitt afbrigðið af náttúruvernd er svokölluð svört náttúruvernd. Sumir sjá ekkert fallegt við svarta eyðisanda, þeir vilja helst græða upp allt landið með lúpínu eða öðru. Svört náttúrvernd er að vernda náttúruna í þeirri mynd sem hún er fremur en að planta trjám eða lúpínu til að græða upp. Svartir eyðisandar þóttu kannski ekki mjög fallegir fyrir nokkrum árum en nú sjá menn mikil verðmæti í slíku ósnortnu landslagi. Við munum líka mörg þá umræðu ekki alls fyrir löngu hve landslagið þótti ljótt frá Keflavík til Reykjavíkur fyrir flugfarþegana. Þarna var sviðið hraun og sandur og stundum mátti lesa greinar í blöðunum um að þessi flugvöllur væri á versta stað í ímyndarlegu tilliti fyrir Ísland. Nú þykir Reykjanesskaginn frábær byrjun fyrir ferðamenn. Svona breytast viðmiðin,“ segir Edda Kristín Eiríksdóttir. Einn af útvörðum Umhverfisstofnunar fyrir vestan.

(Texti: BÞ)