Stök frétt

Jón Smári Jónsson er 40 ára starfsmaður Umhverfisstofnunar. Hann er með BA-próf í sálfræði og steinsnar frá meistaraprófi í umhverfis- og auðlindafræðum frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað hjá Umhverfisstofnun í tvö ár og býr yfir mikilli reynslu af leiðsögn. Þau störf nýtast vel, þar sem hann hefur nú umsjón með friðlandinu á Hornströndum á sumrum, ýmist á skrifstofu Umhverfisstofnunar á Ísafirði eða með veru sinni, gæslu og upplýsingagjöf í friðlandinu sjálfu. Jón Smári hefur einnig starfað að ýmsum stjórnsýsluverkefnum í höfuðstöðvum Umhverfisstofnunar í Reykjavík og nýverið fékk hann stöðu sérfræðings í Kerlingarfjöllum sem stendur til að friðlýsa á næstunni. Jón Smári er því í hópi þeirra starfsmanna Umhverfisstofnunar sem hafa átt þess kost að líta landið og náttúru þess frá ýmsum sjónarhornum.

Ástríða landvarðarins

„Ætli það séu ekki tilfinningar og virðing fyrir náttúrunni sem keyrir mörg okkar áfram,“ segir Jón Smári þegar fundum okkar ber saman á Ísafirði, einn annasaman dag í lok júlí.

Landvarsla var stóraukin á Hornströndum snemmsumars og hefur aldrei verið meiri. Ekki veitir af, því alloft hafa verið sagðar fréttir af heimsóknum óboðinna gesta, sem Jón Smári telur þó alla jafna ekki meiriháttar vandamál. Hann segir eitt einkenna alla þá sem gætt hafa friðlandsins á umliðnum árum.“Það er ástríða fyrir starfinu. Það er að stærstum hluta hugsjónastarf að koma að landvörslunni.“

Hann skýrir út að sum svæði séu vernduð á forsendum lífríkisins en önnur vegna annarra þátta, s.s. landslagsheildar. „Svo eru mörg svæði með sterka menningarsögu að baki. Það að geta verndað þau og skilað þeim áfram til ófæddra kynslóða er mjög mikilvægt. Ef þessi gildi eru skert geta blossað upp miklar tilfinningar í hjarta landvarðarins.“

Ferðamenn vilja fræðslu

Jón Smári tengist sjálfur friðlandinu á Hornströndum í gegnum ættir sínar. „Ég hef farið þarna um frá unglingsaldri, forfeður mínir höfðu mikil tengsl við þetta svæði. Það sem brennur helst á mér er að takast á við sömu áskoranir og forfeður mínir þegar ég á leið um friðlandið.  Mikil uppbygging innviða á þessu svæði myndi skerða sögulegt verndargildi. Eins og háttar til svo víða á friðlýstum svæðum snýst landvarðastarfið á Hornströndum aðallega um vernd og að veita upplýsingar. Ferðamenn leggja flestir mikið upp úr á að fá fræðslu um hvernig eigi að ganga um ósnortnar náttúruperlur,“ segir Jón Smári og bætir við að hver ferð inn í óbyggðirnar sé ákveðin naflaskoðun. Að fá næði til að horfast í augu við sjálfan sig í hraða samtímans geti verið krefjandi. Ekki er ólíklegt að svipuð hugsun laði margan ferðamanninn hingað til lands, fólkið sem vill kynnast sjálfum sér og jörðinni upp á nýtt. Enda eru þolmörk búsetusvæða okkar að láta undan. Við þurfum að skipta um kúrs til að endurheimta sjálfbærni heimkynna okkar.

Talið berst að fyrirhugaðri Hornstrandastofu, samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar, Ísafjarðarbæjar og Byggðasafns Vestfjarða. „Hornstrandir eru ekki svæði sem ber margt fólk á hverju ári. Lífríkið er mjög viðkvæmt á ákveðnum tímum og þarfnast aðhalds og stýringar. Ekki síst í því ljósi yrði Hornstrandasýning um friðlandið, sýning sem hægt væri að sjá allan ársins hring hér á Ísafirði, sennilega til töluverðra tekna fyrir friðlandið og samfélagið. Við viljum kynna svæðið en við getum ekki hleypt öllum inn á það.“

Allir hjálpa öllum

Friðlýst svæði á Íslandi eru alls 114. Jón Smári starfar í tveimur teymum innan Umhverfisstofnunar en meginhluti starfa hans er innan Náttúsvæðateymis. „Við erum 7-8 sem sinnum þessum 114 svæðum. Teymishugsunin hjálpar mér mikið í mínu starfi, enda bakgrunnur fólks ólíkur sem og staðsetning. Við veitum hvort öðru ráðgjöf og ég er óskaplega ánægður með teymið mitt. Það verða alltaf fagnaðarfundir þegar við hittumst að hausti eftir fjarveru og útivistir sumranna. Sumir eru reyndar í heilsárslandvörslu en í okkar tilviki má segja að Hornstrandir verndi sig sjálfar yfir vetrartímann þar sem svæðið er þá mjög óaðgengilegt.“

Ekki er langt síðan Jón Smári gekk um hluta miðhálendisins með unnustu sinni og áði í tjaldi nokkrar nætur á svæði sem sumir myndu kalla einskismannsland, þar sem verkefnið var að setja upp kamar fyrir ferðafólk. Einingar í kamarinn höfðu áður verið fluttar á staðinn með þyrlu Landhelgisgæslunnar og gekk Jóni Smára og félögum vel að setja upp mannvirkið sem mun gagnast mörgum ferðamanninum í framtíðinni.

Hvers konar manngerð hefur gaman að svona brasi?!

„Ég myndi vilja snúa spurningunni við og spyrja: Hver hefur ekki gaman af svona brasi,“ svarar útvörðurinn að bragði, kíminn á svip.

Ferðamenn helsta ógnin

Um þann árangur sem náðst hefur á Hornströndum vegna starfs Umhverfisstofnunar, segir Jón Smári að sannarlega hafi verið gengið til góðs á mörgum sviðum. Ein og sér geti Umhverfisstofnun þó ekki allt heldur sé mikilvægt að ná sátt og samstöðu við aðra aðila. „Hornstrandir eru stórt svæði, landverðir „týnast“ auðveldlega inni á þessum 600 ferkílómetrum og þótt við leggjum mikla áherslu á að eiga gott samtal við landeigendur og Ísafjarðarbæ sem fer með skipulagsvald svæðisins þá þarf að nást sátt með þeim sem nýta svæðin, t.d. ferðaþjónustunni, en nýting getur aldrei verið ofar í forgangsröðunni en þau verndargildi sem lagt er upp með. Ef maður horfir til þeirra gesta sem sækja svæðið þá eru ferðamenn í raun helsta ógnin. Þarna er bæði sjónrænn ágangur af völdum of stórra hópa, einkum á viðkvæmum tímum, en það er ekki bara hinn sjónræni þáttur sem horfa verður til heldur líka lífríkisþátturinn. Þarna er mjög viðkvæmt lífríki, refurinn er friðaður og okkur Íslendingum ber skylda að vernda dýrastofna sem hér eru stórt hlutfall af heimsstofni. Skandínavíski refurinn er í útrýmingarhættu fyrir utan Svalbarða og Ísland hýsir um 90% heildarstofnsins. Þegar eitt land býr yfir svo háu hlutfalli stofns ber því að sjá refnum fyrir griðlandi og Hornstandir eru mikilvægur hluti þess. Óheft ferðamennska getur í þessu tilliti verið mikil ógn, ekki síst ef gestir eru að koma á fengi- eða grenjatíma refsins.“

Jón Smári bætir við: „Við höfum á Hornströndum séð aukningu í ljósmyndaferðum sem eru sérstaklega farnar jafnvel til að mynda yrðlinga. Það hugnast okkur ekki, enda stangast svoleiðis ferðir við á við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem segir að óþarfa umgangur sé óheimill við greni.  Það er á gráu svæði að selja svona ferðir,“ segir Jón Smári sem leggur þó áherslu á að langflestir ferðamenn hegði sér yfirleitt vel og almenn umgengni sé að hans mati á mikilli uppleið.

Hegðun ferðamanna fari batnandi

„Ég hef langa reynslu af ferðamönnum hér og hef orðið vitni að alls konar hegðun og auðvitað misgóðri í tímans rás.  Mín störf hafa ekki síst gengið út á að miðla til ferðamanna eins miklum upplýsingum og hægt er um svæðið, útskýra á hvaða forsendum það er verndað. Það mætti kalla þessar upplýsingar óskalista um hvernig fólk á að hegða sér, leiðbeinandi umgengnisreglur og ég upplifi það í seinni tíð að ferðahegðun hafi batnað til muna. Bæði er fólk upplýstara um svæðið en fyrr, það er með betri búnað en áður sem skiptir máli því Hornstrandasvæðið býr yfir mjög takmörkuðum innviðum. Samskipti mín og landvarða við ferðamenn eru því heilt yfir jákvæð og það er mín reynsla að ferðamenn séu ekki hópur sem reynir að fara huldu höfði og vill ekki virða reglur, þvert á móti.“

Stundum er sagt að það þurfi aðeins einn gikk í hverri veiðistöð til að allt fari í vaskinn. Við ræðum hvort íslenskir landverðir ættu að fá heimild til að sekta brotlega í stað þess að kalla til lögreglu sem er meginúrræðið ef skerst í odda. Væri til bóta fyrir íslenska náttúru að auka valdheimildir landvarða?

„Völd landvarða voru aukin með náttúruverndarlögunum 2015, þar sem segir að landverðir geti vísað einstaklingum sem eru að valda spjöllum burt, en það á enn eftir að útfæra þetta betur, sem er miður. Annars verður útfærslan alltaf snúin, maður vísar ekki einhverjum samstundis út af Hornströndum ef það fer enginn bátur í land fyrr en eftir þrjá daga. Það hefur aldrei reynt á þessar auknu valdheimildir í mínum störfum. Langoftast dugar að fara rólegu leiðina, leiðbeina og upplýsa. Hitt er annað mál að við höfum með náttúruverndarlögunum tæki til að fara í skyndilokanir sem og fyrirbyggjandi lokanir. Þeim úrræðum hefur verið beitt t.d. á Skógaheiðinni á Suðurlandi síðasta haust.“

Þarf fleira fólk til landvörslu

Hver væri draumauppskriftin að opinberu fyrirkomulagi í samskiptum ferðamanns og náttúru að mati Jóns Smára?

„Ég hef ferðast mjög víða erlendis um vernduð svæði og mér finnst Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna algjör fyrirmynd í þeim efnum. Þar er öll upplýsingagjöf og umgjörð til fyrirmyndar og ég hef mikið reynt að horfa til þess hvort við gætum innleitt þótt ekki væri nema brot af þeirra kunnáttu. Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna er orðin 101 árs gömul, sem er til merkis um framsýnina þar á bæ í þessum efnum. Vissulega þarf maður að greiða fyrir aðgang að svæðum en árskort kostar ekki marga dollara og með því hefur fólk nánast óheftan aðgang að flestum hinna vernduðu svæða. Þeir eru líka með mikinn mannafla í landvörslu og mjög mikla viðveru og þá fær gesturinn strax þau skilaboð að hann sé á viðkvæmu svæði og reynir þá jafnan að hegða sér og ganga um í anda þess.“

Að aukin viðvera landvarða sé málið?

„Já, við þurfum meira fé og fleira fólk til að sinna okkar viðkvæmu svæðum. Ef ég horfi bara þröngt á Hornstrandafriðlandið þá erum við ekki endilega að leita að auknu fé til framkvæmda, því við viljum ekki hafa mikla innviði þarna á svæðinu sem fyrr segir. Fyrst og fremst vantar okur fjármuni til viðveru, landvörslu, upplýsingjafar og stýringar. Ef maður horfir til hálendisins þá vantar þar líka víða meiri viðveru, meiri sýnileika landvarða og þá ekki síst til að sporna við þeirri ógn sem utanvegaakstur er. Auknum fjármunum til aukins mannafla er vel varið," segir Jón Smári að lokum.

(Texti: BÞ)