Stök frétt

Fuglaveiðimenn eru farnir að undirbúa fyrstu veiðiferð tímabilsins. Veiðar á grágæsum og heiðagæsum hefjast sunnudaginn 20. ágúst næstkomandi. 1. september hefst veiðitímabil anda, en hér má sjá veiðitímabil þeirra fugla sem heimilt er að veiða.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Þeir veiðimenn sem hyggja á veiðar en eru ekki búnir að endurnýja veiðikortið geta afgreitt sig sjálfir á netinu ef þeir greiða með greiðslukorti þar. Þá er farið inn á Þjónustugáttina – Mínar síður. Til að komast inn á sitt svæði nota menn svo annað hvort rafrænt skilríki eða Íslykil. Aðgangsorð Íslykils er hægt að fá sent í heimabanka. Þeir sem greiða veiðikortið með greiðslukorti geta verið komnir með rafrænt veiðikort í símann innan nokkurra mínútna.

Inni í Þjónustugáttinni – Mínum síðum getur veiðimaðurinn alltaf séð stöðu sína gagnvart veiðikortinu og fengið sent rafræna veiðikortið ef hann hefur týnt því. Það er ráðlegt að vista rafræna veiðikortið í símanum, því ekki er alltaf í netsambandi á veiðum.

Mynd: Martin Mere - wikicommons media