Stök frétt

Davíð Örvar Hansson er stöðvarstjóri hjá Umhverfisstofnun í Mývatnssveit. Hann er alinn upp á höfuðborgarsvæðinu, með BA-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði og er með landvarðarréttindi.

Það hefur verið mikill uppgangur í landvörslu í Mývatnssveit og það er líf og fjör á gestastofunni Mývatnsstofu þegar fundum okkar ber saman í byrjun ágúst. Við hefjum spjallið á svolítið bröttum nótum, enda spyrillinn fæddur og uppalinn á bökkum Mývatns.

-Sýnir sagan að samband manns og náttúru í Mývatnssveit muni ætíð markast af einhverjum átökum?

Davíð Örvar hallar sér aftur í stólnum og hugsar um stund áður en hann svarar.

Ofsi í fréttaflutningi

„Fréttaflutningur héðan hefur stundum verið svolítið ofsafenginn. Vissulega hefur stundum verið ákveðinn núningur milli þeirra sem búa hér allt árið um kring í sveitinni, ferðamanna og Umhverfisstofnunar. Það er kannski ekki svo skrýtið ef maður hugsar út í það. Hér þarf leyfi Umhverfisstofnunar fyrir flestum framkvæmdum þar sem svæðið er að mestu verndað en er þó að mestu einkaland. Sumir telja sig búa við óréttlæti að þurfa að lifa við meiri kvaðir á eigin landi en í nálægum sveitum. En að sama skapi má segja að því fylgi forréttindi að eiga land á vernduðu svæði. Þetta land á bara eftir að auka verðgildi sitt í framtíðinni, því hin óspillta og sérstæða náttúra sem hér er þrátt fyrir byggingarnar í kringum vatnið er mjög mikils virði. Þegar fram í sækir held ég að flestar þær kvaðir sem fylgi þessu verndarsvæði muni ekki teljast neikvæðar en auðvitað eiga sumir erfitt með að sætta sig við þær,“ svarar Davíð.

Skólp fer hvergi óhreinsað í Mývatn

Síðastliðinn vetur skapaðist mikil umræða um skólpmál í Mývatnssveit í kjölfar Kastljóssþáttar. Um þau átök segir Davíð að þátturinn hafi fengið hlutaðeigandi til að spýta í lófana. Allir séu sammála um mikilvægi úrbóta en útfærslan taki tíma.

„Þessi þáttur vakti upp talsverða úlfúð af því að þar var fingri bent á sökudólga og kannski dregin upp svolítið svört mynd. Ástandið er ekki eins slæmt og margir halda. Skólp fer hvergi óhreinsað í Mývatn. Hér er þó ekki fullnægjandi ástand af því að hér er gerð krafa um aukna hreinsun skólps eins og annars staðar þar sem viðtaki er viðkvæmur. Viðbótarhreinsun á sér einnig stað á Egilsstöðum þar sem skólp fer í stöðuvatnið Lagarfljót, einnig er grófhreinsun við Hellu þar sem skólp fer í Ytri Rangá. Alls staðar þar sem losað er í fersksvatn inni í landi þarf ítarlegri úrræði. Hér er hreinsun til staðar en það er unnið að því að auka hana, sem er mjög brýnt vegna hins viðkvæma og einstæða vatnalífríkis.“

Frá skólpinu berst talið að þolmörkum í ferðaþjónustu. Þolmörkum landslags, innviða og þolmarka fólksins. Áður var landið í sveitinni mest megnis til afnota og umferðar fyrir íbúa Skútustaðahrepps. Heimsóknir ferðamanna voru að mestu bundnar við hásumarið og fjöldi ferðamanna ekkert í líkingu við það sem nú er. Tímarnir eru gjörbreyttir. Hundruð eða þúsundir ferðamanna eru á ferð dag hvern og birtast stundum sem óboðnir gestir á einkalöndum sveitarfólksins, ekki síst freista vatnsbakkarnir og fuglalífið sem þar er að finna. Davíð segir að eitt af því sem Umhverfisstofnun sinni daglega í gestastofunni Mývatnsstofu sé að reyna að draga úr álagi ferðamanna á bæi með markvissri upplýsingagjöf. Þá sé forgangsatriði hjá Umhverfisstofnun að ráða heimafólk í stöður landvarða ef þess er kostur. „Þrátt fyrir allt kemur ekkert í skiptum fyrir staðþekkingu. Staðþekkingin er mikilvægasta tækið sem við höfum og við höfum reynt að nýta hana eins og best getur orðið hér í Mývatnssveit.“

Eins og víðar á svæðum Umhverfisstofnunar hefur þjónusta á friðlýstum svæðum verið stóraukin í Mývatnssveit, ekki síst til að bregðast við vaxandi ferðamannastraumi. Þannig hefur gestastofan verið lokuð yfir háveturinn en frá og með næsta vetri er stefnt að því að hafa hana opna allt árið.

Tökum öryggishlutverkið alvarlega

„Við tökum öryggishlutverk okkar mjög alvarlega. Við erum á hálendisjaðrinum og þurfum að veita upplýsingar til ferðamanna sem eru að fara austur yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi, hálent og varasamt svæði. Þótt það sé ekki alltaf brjálað að gera hér yfir veturinn held ég að við sinnum mjög mikilvægum kúnnahópi, ef svo má segja. Við erum komin með landvörslu allt árið og gestastofan Mývatnsstofa verður að líkindum starfrækt frá og með komandi vetri allt árið um kring. Við sinnum fyrirspurnum sem berast allan ársins hring en það getur verið snúið vegna manneklu að sinna öllu í senn, landvörslu, stjórnsýslu og gestastofunni þegar mikið mæðir á,“ segir Davíð.

Að loknu kaffispjalli á skrifstofu Davíðs í Mývatnsstofu ráðgerum við vettvangsleiðangur að Dimmuborgum og Skútustaðagígum. Á leiðinni út rekumst við á Örnu Hjörleifsdóttur sérfræðing sem er fastur starfsmaður Umhverfisstofnunar með Davíð í Mývatnssveitinni. en Arna er ættuð úr sveitinni og býr því yfir mikilvægri staðkunnáttu. Þá eru ótaldir landverðirnir sem eru óvenju margir þetta sumarið.

Í Dimmuborgum erum við vart komnir í gegnum hliðið áður en við göngum fram á einn af landvörðum Umhverfisstofnunar með ferðafólk í fræðslugöngu. Skipulagðar fræðslugöngur eru fyrirbæri sem Umhverfisstofnun um allt land lítur á sem tækifæri. Ferðamennirnir drekka í sig fræðsluna. Á göngustígunum inni í borgunum gengur umgerð gesta eins og í sögu. Það vekur athygli hve steyptur göngustígur fellur ágætlega inn í umhverfi hraunborganna tignarlegu. Margskonar efni hefur verið notað í göngustíga um land allt og er ekki segin saga að sama efnið henti á ólíkum slóðum.

Umgengni ferðafólks á réttri leið

Næst höldum við að Skútustaðagígum þar sem Davíð ræðir nýjar hugmyndir að innviðum. Þar er þröng á þingi eins og í Dimmuborgum en samt ríkir einhver ró yfir ferðafólkinu. Á leiðinni til baka, út í Reykjahlíð, berst í tal að það sé í raun áhugavert að þrátt fyrir háönn í ferðaþjónustu, vikuna fyrir verslunarmannahelgi, sé ekki stressinu fyrir að fara. Að minnsta kosti ekki þennan daginn.

„Nei, það er rétt athugað að fólk veður þetta sumarið ekki út um allt í jafnmiklu mæli og stundum hefur verið. Mín upplifun er að ástandið nú sé mjög gott. Það er minni spenna en oft áður.“

Davíð, einn af útvörðum okkar dýrmætu íslensku náttúru í Mývatnssveit, bætir við: „Brot á reglum hafa verið sárafá þetta sumarið. Til dæmis hefur ekki komið upp eitt einasta tilvik um óheimilar siglingar á Mývatni, ólíkt því sem stundum er. Það má segja að þetta sumar hafi ferðamenn sem hafa gist hérna ekki skapað nein sérstök vandamál. Við upplýsum fólk og fólk tekur upplýsingunum vel. Ef við lítum til þess að aldrei hafi fleiri ferðast um landið okkar en nú held ég að það megi fullyrða að það hafi orðið töluverðar framfarir í hegðun og umgengni ferðamanna við landið og þar held ég að aukin þjónusta Umhverfisstofnunar eigi þátt.“

Við erum aftur komnir í Reykjahlíð og fylgjumst nokkra stund með atganginum í Mývatnsstofu þar sem gestir spyrja starfsmenn um gönguleiðir. Ráðandi spurning er hvað ferðafólkið megi aðhafast á þessu verndaða svæði sem bendir til auðmýktar og virðingar gagnvart öllum þeim náttúruundrum sem þarna er að finna. „Fólk veit oft ekki hvað það má gera áður en það kemur inn á svæðið og það vill ekki gera neitt sem það má ekki. Við reynum líka að stýra gestunum á þau svæði sem eru vel til þess fallin að taka á móti fólki þá stundina, því þannig dreifum við ágangi.“

Það er liðið á daginn og tímabært að kveðja Davíð og annað starfsfólk Umhverfisstofnunar við Mývatnsstofu. Veðrið er milt og bjart en næturnar þó teknar að lengjast ögn. Sumir halda því fram að Mývatnssveit sé aldrei fegurri en á veturna. Þar sem íbúabyggðin stendur nálægt 300 metrum yfir sjávarmáli fer þó enginn í gegnum skammdegið án þess að eiga góða lopapeysu.

„Ég upplifi það sem forréttindi að fá að búa og starfa hér. Hjá Umhverfisstofnun hef ég aðgang að frábæru samstarfsfólki um allt land og fæ ýmis tækifæri til að vinna í höfuðstöðvunum þegar mesta atinu lýkur. Það gefst oft ótrúlegt næði hérna í sveitinni að loknum vinnudegi og ég kann að meta það. Kannski hentar ekki öllum að standa af sér stórhríð, ófærð eða jafnvel rafmagnsleysi en mér finnst ákveðin ró fylgja norðanstórhríðum. Svo koma froststillurnar með glitskýjunum og því öllu. Það jafnast ekkert á við það.“

Texti: BÞ