Stök frétt

Lárus Kjartansson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, gætir Gullfoss og Geysis jafnt vetur sem sumar. Þessar tvær náttúruperlur laða að sér gríðarlegan fjölda ferðamanna á hverju ári. Talið er að gestafjöldi við Gullfoss hafi verið töluvert á aðra milljón árið 2016 og hefur verið brugðist við ferðamannasprengjunni með ýmiss konar framkvæmdum og betrumbótum í þágu öryggis gesta og verndunar svæðanna. Ekki síst hefur nýr stigi við Gullfoss vakið mikla ánægju. Sú framkvæmd eykur öryggi gesta auk þess sem umferð ferðamanna gengur nú mun greiðlegar en fyrr.

Líður best úti í náttúrunni

„Það er gott líf að vera landvörður, einkum ef veðrið er gott. Mér líður hvergi betur en úti í íslenskri náttúru. Ég myndi segja að það væru forréttindi að sinna þessu starfi,“ segir Lárus við fossbrún, skömmu fyrir verslunarmannahelgi. Segja má að tvö fljót renni um þar sem við tökum tal saman. Annars vegar gljúfur Hvítár. Hins vegar beljandi straumur ferðamanna.

Lárus segist finna fyrir landvarðarábyrgð sinni í starfinu, ekki síst hvað varðar ákvarðanir sem þarf að taka nánast daglega til að vernda öryggi gestanna. „Maður gerir sitt besta til að fólk slasist ekki. Það gengur á ýmsu þegar svo gríðarlegur fjöldi fólks kemur saman á litlum bletti. Það þarf að vernda, upplýsa og passa upp á,“ segir Lárus.

Hann bætir við: „Maður sefur varla ef til dæmis veðurspáin gerir ráð fyrir mikilli snjókomu á þessu svæði. Þau ár sem ég hef starfað hér hef ég tekið inn á mig fréttir af fólki sem hrasar og meiðir sig og spurt: Gátum við gert betur?“

Ansi erfiðar aðstæður

Aðstæður við Gullfoss geta orðið ansi erfiðar og þá ekki síst á veturna. Vatnsúði frá fossinum getur breyst í fljúgandi hálku ef frystir. Þótt Lárus bendi á að landverðir, sem í þessum greinaflokki hafa verið kallaðir „útverðir íslenskrar náttúru“, séu ekki öryggisverðir, þá beri þeim að passa upp á bæði landið og gestina eins og framast er unnt. Lykilatriði sé að Umhverfisstofnun sé vel mönnuð til þess eins og aðrar stofnanir sem komi að sambærilegum störfum.

„Þetta er á réttri leið og ég hef skynjað mikla jákvæða breytingu á þessum svæðum undanfarið líkt og víðar á landinu, svo sem í þjóðgarðinum Snæfellsjökli þar sem ég starfaði áður. Þar er komin miklu meiri þjónusta en var. Áður var bara sumaropnun en nú er heilsársopnun í gestastofu þjóðgarðsins Snæfellsjökuls svo eitt sé nefnt. Hér við Gullfoss er búið að framkvæma fyrir tugi milljóna og mönnun verður frá og með haustinu meiri hér en nokkru sinni. Það er linnulaust unnið að því að loka fyrir hættur og bæta aðgengi fólks. En maður myndi þó alltaf vilja sjá enn meira gert.“

Langflestir virða reglur

Þar sem við göngum um Gullfossvæðið vekur kannski mesta furðu leikmanns hve straumur ferðamannastórfljótsins gengur vel. Nokkuð er um að eldra fólk mæðist á göngunni og Lárus bendir á að alloft þurfi að kalla til sjúkrabíla vegna veikinda ferðafólks sem hafi oft ekki beint með staðhætti að gera.  Flestir virðast fara varlega og virðing fyrir ólgandi náttúruperlunni er auðsæ. Kannski fara 99 af hverjun hundrað eftir reglunum en í fréttum er fremur fjallað um frávikin, þá gesti sem gera sinn eigin vilja, fara óvarlega um svæði þar sem ekki má fara um. Hunsa kannski skilti, klofa yfir girðingar inn á lokuð svæði og setja þar með sjálfa sig og aðra í bráða hættu. En þennan dag gengur allt eins og í sögu.

Meira hugað að náttúru en öryggi fólks?

Lárus var um skeið landvörður við Hraunfossa. Þar var eitt sinn settur upp göngustígur alveg við bjargbrúnina. Þá fékk hann spurningu frá þýskri ferðakonu sem spurði hvort Íslendingar legðu meira upp úr því að gæta náttúrunnar en öryggis ferðamanna! Hann segist hafa orðið hugsi vegna spurningarinnar og kannski sé hægt að læra eitthvað af henni. Skemmst er að minnast þess að allmargir erlendir ferðamenn hafa látist hér á landi í ýmsum óhöppum þetta árið en oft má rekja slysin til óaðgæslu eða brots á reglum.

„Stundum er betra að gera ekki neitt en að aðhafast án þess að ígrunda hutina nægilega,“ segir Lárus. Hann segir dæmi um að ráðist hafi verið í framkvæmdir á viðkvæmum og varasömum svæðum án þess að leita eftir kunnáttu heimamanna og landvarða sem oft þekki best til. Fúsk geti reynst dýrt og ýmsar ófullkomnar framkvæmdir við ferðamannastaði hérlendis megi skýra með peningaskorti. „Þá er farið af stað of fljótt og án aðkomu fagfólks. Þá minnka líkurnar á að vel takist til. Umhverfisstofnun hefur í langflestum tilvikum staðið sig mjög vel og við höfum dregið lærdóm af óhöppum en við þurfum oft að stíga varlega til jarðar þegar hrópað er á framkvæmdir. Fyrst og fremst þarf að hlusta vel á fólkið sem þekkir svæðin best.“

Snyrtimennska ýtir undir snyrtimennsku

Sá sem fer um Gullfoss- og Geysisvæðið gæti orðið hissa á því hve svæðið er snyrtilegt þrátt fyrir alla umferðina. „Það voru tímar þegar hér var allt í rusli. Ég man tímabil þegar fjölmiðlar sögðu linnulítið það sem kalla mætti neikvæðar fréttir af þessum svæðum. En nú hefur okkur tekist að gera þetta svæði býsna snyrtilegt. Ef svæði er snyrtilegt þá sjá gestirnir sjálfir um að halda því snyrtilegu áfram. Ef þú ferð um svæði sem er fullt af drasli þegar þú kemur á það verður aukin freisting fyrir ferðamenn að bæta við ruslið,“ segir Lárus.

Hápunktur ferðarinnar

Það líður að því að Lárus hætti störfum við landvörslu við Gullfoss og Geysi, þar sem hann stefnir frá og með haustinu að eigin atvinnurekstri. Að loknum degi við Gullfoss könnum við aðstæður á Geysissvæðinu þar sem einnig er gríðarleg mannmergð og sífellt þarf að halda vöku sinni að sögn Lárusar. Við heyrum fagnaðarópin í þúsundum gesta þegar Strokkur gerir vart við sig og gýs æði myndarlega. Hundruð síma og myndavéla eru á lofti. Ísland ótamið. „Hápunktur ferðarinnar!“ hrópar bandarísk kona.

Skrifstofa Lárusar er staðsett á kyrrlátu svæði í Haukadalsskógi. Við hellum upp á kaffi, vindbarðir eftir veruna við fossinn. Að loknu atinu er notalegt að setjast niður í skóginum og hlusta á þytinn í trjánum.

Talið berst að ímynd stofnunar eins og Umhverfisstofnunar sem hefur m.a. þá skyldu að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Hvort óhjákvæmilegt sé að stundum skerist í odda þar sem áherslur fagmanna, leikmanna og hagsmunaaðila fari ekki alltaf saman.

„Ég held það sé þannig og ég kannast vel við pirring frá t.d. nærsamfélögum út í okkar starfsemi. Þegar ég vann í þjóðgarðinum Snæfellsjökli var oft spurt af hverju gestastofan væri ekki opin allt árið eins og núna. Heimamenn kvörtuðu líka yfir því að bannað væri að skjóta rjúpu þar sem rjúpnaveiði hefði áður verið heimiluð. Svo var það þyrnir í augum sumra að bannað væri að aka um slóða sem áður voru opnir til að tína ber og fleira. Ég held að okkar svar við gagnrýni sé að hlusta á öll sjónarmið án þess að fara í vörn. Gera okkur far um að miðla meiri og betri upplýsingum, eiga stanslaust samtal bæði við nærsamfélagið og gesti. Upplýsa fólk.“

Allt á réttri leið

„Það getur oft skapast spenna vegna þeirra almannahagsmuna sem Umhverfisstofnun ber að standa vörð um og svo aftur einkahagsmuna ferðaþjónustunnar. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þarna verði stundum tog. En mér sýnist þetta allt vera að stefna til betri vegar. Þrátt fyrir þennan ágang og þrátt fyrir allar þessar áskoranir,“ segir Lárus að lokum og rýkur út í eftirlitsferð til að vernda dýrustu djásn vorrar náttúru.

Texti: BÞ