Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið eftirlitsverkefninu Plöntuverndarvörur á markaði 2017 þar sem farið var í eftirlit hjá fyrirtækjum sem markaðssetja slíkar vörur hér á landi. Markmiðið var að athuga hvort plöntuverndarvörur í sölu væru með leyfi til að vera á markaði og hvort merkingar á þeim væru í samræmi við gildandi reglur. Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum. Notkun þessara vara getur verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu sé ekki rétt með þær farið.

Alls fannst 61 plöntuverndarvara sem féll undir umfang eftirlitsins. Reyndust merkingar vera ófullnægjandi í 5 tilfellum. Stofnunin veitti viðeigandi fyrirtækjum tiltekinn frest til að bregðast við frávikum varðandi merkingar. Hafa þau brugðist við á fullnægjandi hátt.

Í eftirlitinu fundust 4 vörur sem reyndust ekki vera með markaðssleyfi og var markaðssetning þeirra stöðvuð tímabundið og þær teknar úr sölu. Fyrirtækjunum hefur verið veittur frestur til að sækja um markaðsleyfi fyrir umræddum vörum, hyggist þau setja þær á markað á ný. Ef ekki verður sótt um markaðsleyfi innan tiltekins frests verður markaðssetning varanna stöðvuð varanlega og farið fram á að þær verði endursendar eða þeim fargað.

Hér má nálgast samantekt um verkefnið plöntuverndarvörur á markaði 2017.