Stök frétt

25. september næstkomandi hefst ein viðamesta björgunaræfing sögunnar í Evrópu og stendur í fjóra daga. Æfingin fer fram í Langesund og Horten í Noregi, bæði á sjó og á landi. Sigríður Kristinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, er í hópi sex fulltrúa Íslands við æfinguna og segir hún að tilgangur æfingarinnar sé ekki síst að samhæfa alþjóðleg viðbrögð gegn alvarlegum efnaslysum eins og olíuleka.

Norska strandgæslan heldur utan um æfinguna en fjölmörg ríki koma að henni og verða um 300 manns á æfingasvæðinu þegar mest verður umleikis.  Æfingunni verður skipt upp í fimm mögulegar atburðarásir (Sub-scenario), þ.e. efnamengun á sjó (Chemical Sea), olíuleka á sjó (Oilspill Sea) olíuleka á ströndinni/fjörunni (Oilspill Shore), brottflutning (Evacuation), efnamengun á landi (Chemical Land) auk þess sem rannsókn fer fram um borð í skipinu.

Poppkorn verður notað til að líkja eftir olíumengun í sjónum, að sögn Sigríðar en froða verður notuð á ströndinni í sama tilgangi. Alls taka 18 skip þátt í sjóæfingunni auk þess sem fjöldi báta verður við ströndina. Tvær flugvélar og flygildi verða einnig á sveimi ásamt öðrum bráðamengunarbúnaði. Verklega æfingin á sjó mun standa yfir í 36 tíma samfleytt.

Þrír íslensku fulltrúanna koma frá Umhverfisstofnun en aðrir þrír frá Landhelgisgæslunni, Samgöngustofu og Olíudreifingu. Æfingin er kostuð af Norsku strandgæslunni og styrkt af Evrópusambandinu.

Nánari upplýsingar á https://scope2017.com/ fyrir áhugasama og facebook síðu verkefnisins https://www.facebook.com/scope2017/

Myndin með fréttinni tengist ekki æfingunni með beinum hætti. Heimild: Wikipedia