Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun.

Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu allmörg síðustu ár.

Í maí sl. barst ráðherra áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis sem fer minnkandi, eins og kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ráðuneytið bendir á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni.

Friðunin tekur gildi 1. september.