Stök frétt

Umhverfisstofnun, Akureyrarakademían og Neytendasamtökin stóðu saman að viðburði í Hofi á Akureyri í síðustu viku. Þar fluttu Elva Rakel Jónsdóttir, neytendateymi Umhverfisstofnunar, og Brynhildur Pétursdóttir hjá Neytendasamtökunum erindi sem vöktu jákvæðar viðtökur hjá almenningi, þar sem hvert sæti var skipað. Siðræn ábyrgð fyrirtækja var meðal annars til umræðu.

Meðal þess sem fram kom á fundinum er að ofneysla er víða vandamál, að sóun á sér stað í sumum heimshlutum á sama tíma og skortur ríkir á öðrum svæðum. Þá er vinnuafl víða misnotað og grænþvottur stundaður hjá sumum fyrirtækjum til að slá ryki í augu neytenda. Allt kallar þetta á að neytendur haldi vöku sinni.

Fram kom í erindum að framlag hvers og eins neytanda skiptir máli, þ.e. hvaða ákvörðun er tekin við val á vöru. Þær Elva Rakel og Brynhildur voru sammála um mikilvægi þess að neytendur „væru með vesen“ þegar þess þyrfti. Með því var m.a. átt við aðhald með fyrirtækjum, leit að réttum upplýsingum. Mikilvægt væri að horfa gagnrýnum augum á heiminn en láta sér þó ekki fallast hendur í uppgjöf heldur blása til sjálfbærrar sóknar.