Stök frétt

Á morgun, laugardag, verða 30 ár liðin frá svokallaðri Montrealbókun við Vínarsamninginn um vernd ósonlagsins. Með bókuninni, sem var undirrituð 16. september árið 1987, var ráðist gegn efnum sem eyða ósonlaginu.

Fyrir tilkomu Montrealbókunarinnar hafði magn ósons í heiðhvolfinu, sem ver líf á jörðinni fyrir skaðlegri útfjólublárri geislun, tekið að minnka ískyggilega. Með samhentu átaki á heimsvísu á forsendum bókunarinnar var þessari þróun snúið við. Mælingar sýna að styrkur efna sem leika lykilhlutverk í eyðingu ósons fer minnkandi í andrúmsloftinu og þynning ósonlagsins hefur verið stöðvuð. Með því einu að stöðva þynninguna er búið að koma í veg fyrir milljónir dauðsfalla af völdum húðkrabbameina og tugi milljóna tilfella af skýi á auga, svo nokkuð sé nefnt. Vonir standa svo til að ósonlagið verði búið að ná fyrri styrk um eða uppúr miðri þessari öld.

Í ljósi þessa frábæra árangurs sem náðist hvað ósoneyðandi efnin varðar samþykktu aðildarríkin í fyrrahaust að hefja útfösun fleiri umhverfisskaðlegra efna með aðstoð bókunarinnar. Í þetta skiptið eru það svokölluð HFC-efni, sem eru gríðarlega virkar gróðurhúsalofttegundir, enda er hlýnun jarðar af mannavöldum stóri umhverfisvandinn í dag.

Það er líka mikilvægt að standa áfram vörð um ósonlagið og það er verkefni sem við þurfum öll að taka þátt í. Það er ennþá í umferð töluvert af búnaði sem inniheldur þessi efni, til dæmis gamlir kæliskápar sem þurfa að fá rétta meðferð til að hindra að efnin sleppi út í andrúmsloftið þegar þeim er fargað. Það ætti alltaf að fara varlega með slíkan búnað, passa að þeir verði ekki fyrir hnjaski og koma þeim til móttökuaðila sem getur meðhöndlað þá með réttum hætti.

Í upplýsingum frá Ósonskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í tengslum við afmælið segir að mikilvægt sé að almenningur átti sig á mikilvægi þess að vernda áfram ósonlagið. Brýnt sé að gefa því gaum sem hefur áunnist en taka jafnframt virkan þátt í því krefjandi verkefni fram undan að stemma stigu við hlýnun andrúmsloftsins.