Stök frétt

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 28. september er fjallað um skólphreinsivirki hjá Hótel Reynihlíð og umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar en Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um matsskyldu framkvæmda. Í fréttinni sem hefur fyrirsögnina „Þarf ekki að fara í umhverfismat“ kemur fram að Umhverfisstofnun hafi fallið frá fyrri afstöðu sinni um að skólphreinsivirkið skuli fara í umhverfismat. Ástæðan sé nýjar og ítarlegar upplýsingar frá framkvæmdaaðila.

Umhverfisstofnun vill taka fram að síðari umsögnin sem send var Skipulagsstofnun 18. þessa mánaðar fékk ekki viðeigandi rýni samkvæmt gæðaferlum innan stofnunarinnar. Hefur þessi umsögn því verið afturkölluð með bréfi sem sent var Skipulagsstofnun í dag. Þegar frekari rýni stofnunarinnar er lokið verður umsögn stofnunarinnar send að nýju til Skipulagsstofnunar.

Umhverfisstofnun biðst velvirðingar á mistökunum og mun bregðast við með því að treysta verklag við vinnslu umsagna.