Stök frétt

Ferðamenn sem áttu leið um Dimmuborgir um helgina urðu fyrir truflun vegna dróna sem látinn var fljúga mjög lágt í borgunum. Í einu tilfelli flaug dróni aðeins nokkra metra ofan við höfuð gesta. Auk hins sýnilega áreitis fylgir töluverð hljóðmengun drónaflugi í svo lágri hæð. Komu fram kvartanir hjá ferðamönnum vegna drónanna, að þetta áreiti í stórbrotinni náttúru Dimmuborga væri á skjön við markaðssetningu um kyrrð íslenskra óbyggða.

Davíð Örvar Hansson, stöðvarstjóri Umhverfisstofnunar á Mývatnsstofu, staðfestir að mjög margir drónar hafi verið á flugi um helgina í Mývatnssveit. Séu ýmsir hugsi vegna þeirra mála.

Reglur virðist skorta um drónaflug í náttúru landsins. Þó hefur á sumum ferðamannastöðum verið komið upp skiltum þar sem gefið er til kynna að drónaflug sé bannað. Umhverfisstofnun getur takmarkað drónaflug við sérstakar aðstæður m.a. til að vernda fuglalíf á friðlýstum svæðum en aðeins hluta ársins. Vonast er eftir því að sögn Davíðs að reglur verði settar í verndaráætlun svæða um drónaflug, reglur sem yrðu undirritaðar af ráðherra.

Samgöngustofa gaf í febrúar síðastliðnum út ákvörðun sem gildir um flug alldra dróna yfir Íslandi. Þar kemur m.a. fram að óheimilt er að fljúga dróna hærra en í 130 metra hæð. Engar reglur eru til um lágmarkshæð.

Reglugerð er í vinnslu eftir því sem fram kemur á vef Samgöngustofu um frekari skref í þessum efnum.