Stök frétt

Nú þegar styttist í fyrstu rjúpnaveiðihelgina, en fyrsti veiðidagur er föstudagurinn 27. október næstkomandi, minnir Umhverfisstofnun veiðimenn á að skila inn veiðiskýrslu og sækja um endurnýjun veiðikorts.

Til að komast inn á skilavefinn er nóg að smella á eftirfarandi slóð  http://umsokn.umhverfisstofnun.is/web/index.html og nota rafrænt skilríki eða Íslykil. Ef þú ert hvorki með Íslykil eða rafrænt skilríki getur þú sótt um Íslykil á island.is. Þá berst þér Íslykillinn annað hvort í netbanka/heimabanka þinn (tekur 5-10 mínútur) eða lögheimili (tekur 4-6 virka daga). Íslykillinn er aðgangsorð sem Þjóðskrá Íslands gefur út. Upplýsingar um rafræn skilríki í síma má finna á skilriki.is.

Öllum veiðikorthöfum er skylt að skila inn veiðiskýrslu undangengins veiðiárs hvort sem þeir veiddu eitthvað eða ekki. Eins þarf veiðikorthafi að skila inn skýrslu hvort sem hann hyggst endurnýja veiðikort eða ekki. Til að skerpa á skilaskyldunni hækkar veiðikortagjaldið hjá þeim sem skila inn veiðiskýrslu sinni eftir 1. apríl úr 3.500 kr. í 5.000 kr. Kjósi menn að fá plastkort bætist sendikostnaður við, 170 kr. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Rafrænt veiðikort

Nú fá allir sent rafrænt veiðikort á netfang sitt þegar greitt hefur verið fyrir kortið. Þeir sem greiða með debet- eða kreditkorti fá rafræna veiðikortið sent um leið og þeir hafa greitt fyrir kortið á netinu. Þeir sem kjósa að greiða inn á bankareikning mega eiga von á að afgreiðslan taki 3-5 daga. Veiðimenn geta afþakkað plastkortið og látið rafræna veiðkortið duga en hægt er að hafa það í snjallsímum og eins er hægt að prenta það út fyrir veiðiferðina. Þegar veiðimaður hefur gengið frá veiðiskýrslu og greitt fyrir kortið getur hann alltaf sótt rafræna veiðikortið í Þjónusutgáttin - Mínar Síður.

Það hefur borið á því að veiðimenn hafi ekki fundið rafræna veiðikortið í tölvupóstinum hjá sér þótt þeir séu búnir að fá kortið afgreitt. Helsta skýringin er að í gmail og á hotmail ratar tölvupóstur frá Umhverfisstofnun ekki endilega í innhólfið heldur í ruslpóstsmöppuna (e. junkmail) eða jafnvel aðrar möppur, sérstaklega ef viðhengi fylgir eins og á við um rafræna veiðikortið. Þeir sem finna ekki veiðikortið sitt ættu því að leita í þessum möppum.

Athugið einnig að það er alltaf hægt að fara inn á Þjónustugáttina-Mínar síður hér á heimasíðu Umhverfissstofnunar og fá rafræna veiðikortið sent aftur.

Greiðsla fyrir veiðikort á skilavefnum

1. Með debet- eða kreditkorti

Hægt er að greiða fyrir veiðikortið með debet- eða kreditkorti á vefnum. Greiðslan verður þá gjaldfærð samtundis. Um leið og greiðsla með greiðslukorti hefur farið fram sendist rafrænt veiðikort á netfang veiðikorthafa.

2. Greitt inn á reikning

Þeir veiðimenn sem ekki hafa tök á að greiða með greiðslukorti geta greitt inn á reikning okkar( 565-26-3298, kt 701002-2880). Upphæð greiðslu kemur fram á skilavef þegar valið er að greiða inn á reikning. Það getur tekið allt að 3-5 daga að fá veiðkortið afgreitt sé greitt inn á reikning.

Ef greiðandi er annar en handhafi veiðikorts skal kvittun send í tölvupósti á netfangið veidistjorn@umhverfisstofnun.is með kennitölu veiðikortshafa í skýringu.

(Mynd: Wikipedia)