Stök frétt

Á undanförnum árum hefur Umhverfisstofnun í samstarfi við  Vatnajökulsþjóðgarð, Vegagerðina og Lögregluna gert átak í að fræða ferðamenn um afleiðingar aksturs utan vega á náttúru Íslands og lagt kapp á að sporna gegn því.

Nú þegar vetur er genginn í garð er mikilvægt að benda á reglur sem gilda um akstur á snævi þakinni jörð. Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013,  31. gr. segir: „ Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum.“

 Það sem átt er við með náttúruspjöllum er skilgreint í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands nr. 528/2005, í 3.gr. þar sem segir: „Náttúruspjöll: Spjöll á gróðri, dýralífi, jarðvegi, jarðmyndunum og landslagi hvort sem um varanlegan eða tímabundinn skaða er að ræða. Myndun slóða og hjólfara hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu svo sem melum.“

Akstur utan vega á snævi þakinni jörð er einungis heimill ef jörð er frosin og með nægilega þykkum og traustum snjó svo tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir skaða og að það trufli ekki dýralíf.

Ef einhver vafi leikur á hvort umræddar aðstæður til aksturs séu til staðar, skal náttúran ávallt njóta vafans. Njótum náttúrunnar og stöndum vörð um hana saman.