Stök frétt

Samevrópsk Nýtnivika er hafin en átakið hófst með Kaffi Nýtni „Repair café“ sl. laugardag. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíkan viðburð á Íslandi og stóðu Umhverfisstofnun og Reykjavíkurborg saman að skipulagningu hans.

Hugmyndafræði „Repair café“ er að fólk geti komið saman og fengið aðstoð við að gera við hluti. Í þetta sinn var viðburðurinn haldinn á Kaffi Laugarlæk í Reykjavík. Komu nemendur úr fataiðn og húsgagnasmíði frá Tækniskólanum til að leggja lið. Katla Sigurðardóttir kjóla- og klæðskeri og Dr. Bæk buðu einnig fram aðstoð sína við viðgerðir á hjólum, fötum og húsgögnum. Átakið heppnaðist vel.

"Við fundum fyrir mikilli ánægju með þetta framtak og erum mjög vongóð um að svona viðburður verði aftur haldinn og vonandi reglulega á Íslandi,“ segir Hólmfríður Þorsteinsdóttir í neytendateymi Umhverfisstofnunar.

Nýtnivikan fer fram til að vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að draga úr magni úrgangs og finna leiðir til að nýta betur hluti. „Það má segja að við séum allt of fljót að henda og kaupa nýtt. Það endurspeglast bæði í tölum fyrir neyslu Íslendinga sem og úrgangsmagni sem hefur vaxið í takt við hagvöxt síðustu ára og er orðið svipað og hrunárið 2008,“ segir Hólmfríður.

Neytendateymi Umhverfisstofnunar hvetur landsmenn til að hugsa sig um áður en fjárfest er í nýjum hlut. Gott er að hafa nokkur atriði í huga:

  • Þarf ég raunverulega á þessum hlut að halda? Er hann kannski algjörlega óþarfur?
  • Get ég gert við það sem ég á fyrir? Margir bjóða upp á viðgerðir, s.s. á skóm, töskum, fatnaði, raftækjum, símum og fleiru sem lengir líftíma eigna okkar.
  • Get ég fengið lánaða eða leigt hluti? Þurfum við fullan bílskúr eða geymslu af tækjum og hlutum sem við notum kannski einu sinni á ári? Er þá ekki bara betra að fá lánað t.d. hjá fjölskyldu og nágranna? Lána þeim aðra hluti í staðinn?

Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til að fylgjast með á facebooksíðu Nýtnivikunnar og taka þátt í facebook leik Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að vinna sundkort og menningarkort.