Stök frétt


Breyting á reglugerð um hollustuhætti um heimild til að koma með hunda og ketti á veitingastaði tók nýlega gildi. Reglugerðin kveður meðal annars á um að eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða er gert heimilt að leyfa gestum að koma með hunda og ketti inn á staðinn, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Heimildin gildir hvorki um veitingastaði né mötuneyti þar sem mæting er ekki valfrjáls og á stöðum þar sem fólki er gert að sækja þjónustu. Þá gildir heimildin ekki sé aðstaða veitingastaðar að einhverju leyti sameiginleg með annarri starfsemi eða á stað þar sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á.
Ef ákveðið er að veitingastaður leyfi hunda og ketti er mikilvægt að hlutaðeigandi geri sér grein fyrir að ekki er hægt að leyfa dýrin tímabundið og að mögulega séu vissir hópar útilokaðir.

Skilyrði fyrir því að leyfa hunda og ketti inni á veitingastöðum eru eftirfarandi:

  • Ætíð skal taka mið af hagsmunum gesta og velferð dýranna.
  • Eigendum eða rekstraraðilum ber að auglýsa á áberandi hátt á húsnæðinu sjálfu utan dyra sem innan, og á vef fyrirtækisins að heimilt sé að koma með hunda og ketti inn á staðinn, þannig að þessar upplýsingar séu vel sýnilegar gestum áður en gengið er inn á veitingastað. Þeir staðir sem ekki kjósa að nýta sér þessa heimild þurfa ekki að auglýsa það sérstaklega.
  • Rekstraraðila ber að tryggja að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd. Þetta gildir t.d. um hlaðborð eða þegar framleiðsla matar er í sama rými og veitingasalurinn.
  • Heimildin gildir hvorki um mötuneyti né veitingastaði þar sem mæting er ekki valfrjáls og á stöðum þar sem fólki er gert að sækja þjónustu.
  • Ef aðstaða veitingastaðar er að einhverju leyti sameiginleg með annarri starfsemi eða á stað þar sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á, gildir heimild þessi ekki.
  • Eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða sem vilja nýta sér þessa heimild ber að tilkynna það til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
  • Sjá nánar um breytinguna á reglugerð hér: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=e8a35ba9-ba48-11e7-941e-005056bc4d74