Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm hf. til framleiðslu á allt að 4.000 tonnum á ári af laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði, sveitarfélaginu Ísafirði. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar tekur á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið gerir ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun og eftirlit og mælingar á starfstíma. Með starfsleyfinu er dregið úr þeim áhrifum sem mengun vegna eldisins veldur á botni fjarðarins með því að hvíla svæði milli kynslóða. Með þeim hætti nær botninn að jafna sig á milli eldislota. Gerðar eru mælingar til að meta ástandið.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi, sbr. 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999, fyrir Arctic Sea Farm hf. á tímabilinu 9. nóvember 2016 til 5. janúar 2017. Auglýsingin var birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar, dags. 9. nóvember 2016 og 5. júlí 2017, ásamt gögnum sem lágu til grundvallar tillögunni. Auglýsingin var einnig birt í Lögbirtingarblaði, dags. 9. nóvember 2016, og staðarblaði Bæjarins besta 10. nóvember 2016. Tillagan var auglýst aftur á tímabilinu 5. júlí til 31. ágúst 2017 og birt í Lögbirtingarblaðinu 5. júlí. Umsóknargögn voru send hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd til umsagnar þann 29. mars 2017 og aftur þann 29. júní 2017. Starfsleyfistillagan var einnig send beint á helstu hagsmunaaðila, sem voru Landsamband veiðifélaga, Landsamband fiskeldisstöðva, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Skipulagsstofnun. Gögn lágu frammi á skrifstofu Ísafjarðarbæjar á auglýsingatíma.

Stofnuninni bárust athugasemdir frá fjórum aðilum og er gerð grein fyrir þeim í greinargerð með starfsleyfinu.

Nýja starfsleyfið öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar og gildir það til 22. nóvember 2033.