Stök frétt

Þessa dagana hlánar og frystir reglulega á Íslandi, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Erlendir gestir sem eiga leið um náttúruperlur landsins átta sig ekki alltaf á varasömum aðstæðum, enda hætturnar oft ósýnilegar.

Við Skógafoss hafa landverðir Umhverfisstofnunar sett upp skilti sem vara við íshruni í gilinu við fossinn þar sem bjargið slútir fram. Við fossinn er einnig stöðug hálka þegar hitastig er í og við frostmark. Hafa landverðir einnig sett upp skilti því til viðvörunar.

Landverðir vilja koma þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að vara viðskiptavini við fyrrgreindum hættum. Þá hvetja landverðir gesti, jafnt innlenda sem erlenda, að hafa mannbrodda til taks næstu mánuði þegar hávetur ríkir.