Stök frétt

Um 60.000 gestir hafa verið taldir inn á gestastofu Umhverfisstofnunar á Malarrifi á Vesturlandi það sem af er ári. Tæplega 400.000 gestir hafa komið í þjóðgarðinn Snæfellsjökul samkvæmt upplýsingum frá Jóni Björnssyni þjóðgarðsverði.

Að sögn Jóns hefur gestum fækkað undanfarið eins og venja er á þessum árstíma. Ríflega 2.500 gestir hafa komið í þjóðgarðinn það sem af er mánuði eða 230 gestir að meðaltali á dag. Þar af hafa 523 gestir komið á gestastofuna eða rúm 20% gesta.

Gestum þjóðgarðsins hefur fjölgað um nær 27% milli áranna 2016 og 2017. Þá hefur gestum á gestastofuna fjölgað um 21% milli ára.

Opnunartími gestastofunnar yfir jólin

Gestastofan er opin alla daga (jafnt virka sem helgar) frá kl. 11:00 til 16:00.

Um jólin verður lokað frá aðfangadegi til annars í jólum, 24.-26. des. Að öðru leyti er opið út desember fyrir utan gamlársdag, 31. desember, en þá er lokað. Einnig er lokað á nýársdag, 1. janúar.

Gestastofan opnar 2. janúar á nýju ári og verður hún opin alla virka daga fram á vor.