Stök frétt

fiskeldi

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi fyrir Arctic Sea Farm hf. til framleiðslu á allt að 6.800 tonnum af laxi á ári í sjókvíaeldi, annars vegar við Kvígindisdal í Patreksfirði og hins vegar við Akravík í Tálknafirði. Starfsleyfið byggist á skilyrðum á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem sett er með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar tekur á mengunarþætti eldisins og gerir ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi á tímabilinu frá 29. júní til 25. ágúst 2017. Auglýsingin var birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar, dags. 29. júní 2017, ásamt gögnum sem lágu til grundvallar tillögunni. Auglýsingin var einnig birt í Lögbirtingablaði sama dag og auk þess var tilkynning um auglýsinguna birt þann dag í staðarblaðinu Vestfirðir. Umhverfisstofnun tilkynnti auk þess um auglýsingu starfsleyfis til tengdra aðila, þ.e. Arnarlax, Matvælastofnun, Skipulagsstofnun, Hafrannsóknastofnun, aðila tengdum laxveiðum, Landssambandi fiskeldisstöðva og heilbrigðisfulltrúum á svæðinu. Gögn voru aðgengileg hjá sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði á auglýsingatíma.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna sameiginlegrar áætlunar Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax ehf. var birt þann 23. september 2016 þar sem stofnunin telur helstu neikvæðu áhrifin vera vegna sjúkdóma, laxalúsar, áhrif á náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun funduðu 27. nóvember 2017 vegna álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og fóru yfir niðurstöðuna saman, þar sem um er að ræða tvo leyfisveitendur sem gefa út leyfi sem eru nauðsynleg til rekstrar og byggja á sama umhverfismati. Telur stofnunin að allar forsendur og niðurstöður matsins hafi komið til skoðunar og leyfin endurspegli niðurstöðu umhverfismatsins.

Fimm umsagnir bárust um starfsleyfistillöguna. Þær komu frá Hafrannsóknastofnun, Arctic Sea Farm hf., Atvinnu- og menningarráði Vesturbyggðar og tvær umsagnir komu frá Óttari Yngvasyni f.h. fleiri aðila.

Umhverfisstofnun sendir Matvælastofnun starfsleyfið eftir ákvörðun um útgáfu sbr. 4. gr. a laga nr. 71/2008, um fiskeldi, og skal afhent og birt umsækjanda ásamt rekstarleyfi samtímis. Starfsleyfið öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar til rekstraraðila samhliða rekstrarleyfi (afhent 22. des. sl.) og gildir til 13. desember 2033.

27. desember 2017

Umhverfisstofnun

Tengd skjöl